Innlent

Til­kynnt um á­tján nauðganir á mánuði í fyrra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglu bárust í fyrra 220 tilkynningar um nauðganir.
Lögreglu bárust í fyrra 220 tilkynningar um nauðganir. Vísir/Vilhelm

Talsverð aukning hefur verið á tilkynningu kynferðisbrota á undanförnum árum en í fyrra bárust 37% fleiri tilkynningar um nauðganir til lögreglunnar en árið 2020. 

Þetta kemur fram í nýjum ársfjórðungslegum tölfræðiupplýsingum ríkislögreglustjóra um tilkynningar kynferðisbrota. Þar segir að árið 2021 hafi lögreglu borist 220 tilkynningar um nauðganir sem samsvari 37% fjölgun frá árinu á undan. Nær línulegur vöxtur hafi verið í tilkynntum nauðgunum hér frá árinu 2010 þegar þær voru 98. 

Að meðaltali er nú tilkynnt um 18 nauðganir á mánuði en heildarfjöldi tilkynntra kynferðisbrota í fyrra var 672, sem er aukning um 14% miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. 

Þá fjölgaði tilkynntum kynferðisbrotum gegn börnum en lögreglunni bárust 142 tilkynningar um slík brot í fyrra, sem er fjölgun um 29% miðað við meðaltalið árin þrjú á undan. Þá fjölgaði sömuleiðis tilkynningum um barnaníð í formi vörslu mynda og myndskeiða. 

Sömu sögu er að segja um tilkynningar um kynferðislega áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi. Alls voru 104 slík brot tilkynnt í fyrra en meðaltalið á ári síðustu þrjú árin á undan voru 57 tilkynningar. 

Telja vitundarvakningu og umræðu útskýra fjölgun tilkynninga

Fram kemur í skýrslunni að leiða megi líkur að því að vitundarvakning og samfélagsleg umræða um kynbundið ofbeldi hafi orðið til þess að fleiri brot séu tilkynnti til lögreglu og fjölgun tilkynninga megi því að einhverji leiti rekja til þess. Þá geti jafnframt verið að samkomutakmarkanir hafi haft áhrif á brot og tilkynningar síðastliðin tvö ár. 

Karlmenn voru í miklum meirihluta þeirra sem grunaðir eru um kynferðisbrot og þá eru langflestir brotaþolar kvenkyns. Á síðasta ári voru 420 einstaklingar grunaðir um kynferðisbrot og af þeim voru 94% karlmanna. Meðalaldur grunaðra karla eru 35 ár og grunaðra kvenna 30 ár. Þegar kemur að brotaþolum voru þeir í 84% tilvika kvenkyns en tilkynntum brotum gegn körlum hefur þó farið fjölgandi frá árinu 2017. 

Þegar um einungis nauðgunarbrot er að ræða hækkar hlutfall karlkyns grunaðra í 99% og brotaþolar voru í 93% tilvika konur. 

Hlutfall barna í tilkynntum kynferðisbrotum hefur þá aukist gríðarlega og hefur ekki verið hærra síðan 2017, eða 61%. Þetta hlutfall hækkar í 70% ef horft er til kynferðisslegrar áreitni, brota gegn kynferðislegri friðhelgi og blygðunarsemisbrota. Tæpur þriðjungur nauðgana beinist að börnum. 

Ríkislögreglustjóri stefnir nú að því að birta ársfjórðungslega tölulegar upplýsingar um kynbundið ofbeldi sem tilkynnt hefur verið um. Þar verður leitast eftir því að veita upplýsingar um tíðni og þróun atvika, en einnig um sakborninga og brotaþola. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×