Umfjöllun og viðtöl: ÍBV 28 - 26 Valur | Eyjamenn hefja árið með sigri á Val

Einar Kárason skrifar
Petar Jokanovic var góður í marki Eyjamanna í dag.
Petar Jokanovic var góður í marki Eyjamanna í dag. mynd/@ibvhandbolti

ÍBV tók á móti Íslandsmeisturum Vals í sínum fyrsta leik eftir jóla- og EM-hlé og unnu frækinn sigur, 28-26, í háspennuleik.

Eyjamenn höfðu ekki spilað leik síðan um miðjan desember fyrir leik dagsins en það var ekki ryð að sjá á spilamennsku liðsins. Leikurinn var jafn í upphafi og ljóst að framundan væri hörkuleikur eins og er gjarnan milli þessa liða. ÍBV náði fínu forskoti á gestina um miðjan fyrri hálfleik, 8-4, en Valsmenn áttu þá góðan kafla og skoruði fimm mörk gegn einu. Staðan því orðin jöfn að nýju og var það lítið sem skildi liðin að það sem eftir lifði hálfleiks. Í hálfleik var staðan 13-12, heimamönnum í vil.

Hvítklæddir Eyjamenn hófu seinni hálfleikinn vel og skoruðu fyrstu þrjú mörkin áður en gestirnir náðu að svara. Eins og í fyrri hálfleiknum hafði ÍBV yfirhöndina en Valur aldrei langt undan. Eyjamenn náðu mest fjögurra marka forustu en Valsmönnum tókst að jafna leikinn margoft, án þess að ná að gera betur. Gestirnir höfðu tækifæri til jafna leikinn enn og aftur á lokamínútu leiksins í stöðunni 27-26 en Petar Jokanovic varði þá frá Finni Inga Stefánssyni. Heimamenn tóku þá leikhlé áður en Theodór Sigurbjörnsson gerði út um leikinn þegar einungis sekúndur voru eftir á klukkunni. Svo fór að ÍBV vann stóran tveggja marka sigur á Íslandsmeisturunum, 28-26.

Af hverju vann ÍBV?

Þrátt fyrir langt hlé virkaði Eyjaliðið ferskt og tilbúið í átök. Vörn og markvarsla var góð mest allan leikinn og hittu skyttur liðsins á góðan dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði ÍBV var Sigtryggur Daði Rúnarsson atkvæðamestur með níu mörk, þar af tvö úr vítum. Petar Jokanovic átti afbragðsleik í markinu og varði átján skot, þar af þrjú vítaköst.

Í liði Vals voru Arnór Snær Óskarsson og Finnur Ingi Stefánsskot markahæstir með sjö og sex mörk. 

Hvað gekk illa? 

Valsmönnum gekk illa að verjast skotum fyrir utan hjá skyttum ÍBV en átján af tuttugu og átta mörkum ÍBV komu frá skyttum og leikstjórnendum. Markvarslan, ásamt vörn, var heilt yfir ekki nægilega góð ásamt því að liðið fór illa með mörg góð marktækifæri. 

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fara norður og etja þar kappi við KA á meðan Valsmenn heimsækja lið Fram.

Erlingur: Sáttur með stöðuna á liðinu

Erlingur var ánægður með sína menn í dag.Vísir/Hulda Margrét

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sína menn að leik loknum.

,,Þetta var hörkuleikur. Mikil barátta og smá læti á köflum. Heilt yfir var varnarleikurinn góður og markvarsla góð. Við duttum aðeins niður í seinni hálfleik en svo kom Petar (Jokanovic) til baka og varði mikilvæg skot."

"Sóknarleikurinn fannst mér flottur en það sama gerist þar, við dettum niður en komum til baka. Ég er nokkuð sáttur með leikinn með það í huga að við höfum ekki spilað leik í tvo mánuði, ekki einn æfingaleik. Þess vegna fannst mér liðið gera nokkuð vel. Ég er nokkuð sáttur með stöðuna á liðinu."

Frábær byrjun á árinu

,,Það er gaman að hafa fengið að byrja á heimavelli og kveikja í stemningunni aftur. Við höfum beðið lengi og menn hafa lagt vel í púkkið. Menn hafa æft vel og gert sig klára fyrir átökin. Stemningin er alltaf til staðar í Eyjum en það erum við sem þurfum að gefa tóninn. Það er okkar markmið að sýna að við séum tilbúnir að berjast fyrir félagið og samfélagið."

Snorri Steinn: ÍBV verðskuldaði sigurinn

Snorri Steinn var vonskinn að leik loknum.Vísir/Hulda Margrét

,,Ég er vonsvikinn," sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals eftir leik. ,,Ég er ekki ánægður með frammistöðuna hjá mínu liði í dag. ÍBV voru okkur erfiðir. Við erum að fara illa með mörg góð færi ásamt því að markmaður þeirra hittir á góðan dag. Það breytir því ekki að það eru of mörg dauðafæri sem fara í súginn."

,,Varnarlega finnum við ekki taktinn. Hvort sem það var í sex-núll eða fimm-einum. Við erum í allskonar brasi. Sóknarleikurinn gengur illa og við erum með mjög lítið af mörkum utan af velli. Ég held að þetta hafi verið verðskuldaður sigur hjá ÍBV."

Langur eltingaleikur

Eyjamenn höfðu yfirhöndina mest allan leikinn og þrátt fyrir að Valsmenn næðu að jafna komust þeir aldrei yfir.

,,ÍBV er yfir allan leikinn og leiða. Þeir eru með yfirhöndina, finnst mér, lungað úr leiknum og eru bara betri en við í dag. Þetta var verðskuldað. Við gerum ekki nóg til að vinna þennan leik. Jafntefli hefði líklega ekki verið sanngjörn úrslit þó svo möguleikinn hafi verið fyrir hendi. Færanýtingin var ekki nægilega góð til þess að ná í stig í Eyjum í dag," sagði Snorri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira