Erlent

Skipuleggjendum sagt upp störfum en fyrirtækið segir ekki um að ræða hefndaraðgerðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starfsmenn Starbucks í Bandaríkjunum freista þess nú að mynda verkalýðsfélög til að knýja fram betri kjör.
Starfsmenn Starbucks í Bandaríkjunum freista þess nú að mynda verkalýðsfélög til að knýja fram betri kjör. epa/Justin Lane

Nokkrum starfsmönnum kaffihúsakeðjunnar Starbucks hefur verið sagt upp störfum vegna aðkomu þeirra að skipulagningu stofnunar verkalýðsfélags starfsmanna keðjunnar í Tennessee.

Unnið er að stofnun verkalýðsfélaga starfsmanna Starbucks á fleiri en 50 stöðum í Bandaríkjunum en eitt slíkt hefur þegar litið dagsins ljós, í Buffalo í New York ríki.

Starfsmenn Starbucks freista þess að sameinast og knýja fram samninga um betri kjör og vinnuaðstæður. Forsvarsmenn keðjunnar segja starfsmennina sem sagt var upp hins vegar hafa brotið gegn reglum fyrirtækisins, meðal annars með því að hafa notað verslun eftir lokun.

Þeir neita því að um hefndaraðgerðir sé að ræða.

Starbucks Workers United, samtök sem hafa aðstoðað starfsmenn í baráttu sinni, segjast munu höfða mál vegna uppsagna sjö starfsmanna í versluninni í Memphis. Flestir starfsmannanna hefðu átt óaðfinnanlegan starfsferil hjá fyrirtækinu.

Starbucks starfrækir 8 þúsund verslanir í Bandaríkjunum en framkvæmdastjórar fyrirtækisins upplýstu hluthafa um það á dögunum að kostnaður vegna þjálfunar starfsmanna og aðgerða til að halda þeim í vinnu hefðu veruleg áhrif á afkomu fyrirtækisins.

BBC fjallar um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×