Enski boltinn

Tottenham í 16-liða úrslit eftir öruggan sigur gegn Brighton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tottenham Hotspur verður í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit FA-bikarsins á morgun.
Tottenham Hotspur verður í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit FA-bikarsins á morgun. Paul Harding/Getty Images

Tottenham Hotspur vann nokkuð öruggan 3-1 sigur er liðið tók á móti Brighton í seinasta leik dagsins í fjórðu umferð FA-bikarsins í kvöld.

Gestirnir í Brighton reyndu mikið að spila út úr vörninni í upphafi leiks og komu sér óþarflega oft í vandræði. Það varð þeim að falli á 13. mínútu leiksins þegar Tottenham vann boltann á hættulegum stað, Pierre-Emile Hojbjerg kom boltanum á Harry Kane og sá síðarnefndi setti boltann út við stöng með góðu skoti fyrir utan teig.

Heimamenn komust svo í 2-0 tæpum tíu mínútum síðar þegar Emerson Royal átti fínan sprett upp að endalínu og fyrirgjöf hans fór af tá Solly March og þaðan í netið.

Tottenham fór því inn í hálfleikshléið með tveggja marka forystu, en Yves Bissouma minnkaði muninn fyrir gestina á 63. mínútu með góðu skoti sem hafði viðkomu í Hojbjerg á leiðinni í netið.

Heimamenn í Tottenham voru þó ekki lengi að endurheimta tveggja marka forystu sína, en aðeins þremur mínútum síðar var Heung-Min Son við það að sleppa í gegn áður en Adam Webster náði að pota í boltann. Harry Kane var þá fyrstur til að átta sig og ýtti boltanum yfir línuna í autt markið.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og Tottenham fagnaði 3-1 sigri. Lundúnaliðið verður því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit FA-bikarsins á morgun, en Brighton situr eftir með sárt ennið.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×