Fótbolti

Bayern jók forskot sitt á toppnum í fimm marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Müller skoraði fyrsta mark leiksins.
Thomas Müller skoraði fyrsta mark leiksins. Markus Gilliar/GES-Sportfoto via Getty Images

Bayern München er nú með níu stiga forskot á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar eftir 3-2 sigur gegn RB Leipzig í kvöld.

Thomas Müller kom heimamönnum í Bayern yfir strax á 12. mínútu leiksins áður en Andre Silva jafnaði metin stundarfjórðungi síðar.

Müller hélt svo að hann hefði komið Bayern yfir á nýjan leik þegar hann setti boltann í netið stuttu fyrir hálfleik, en eftir skoðun myndbandsdómara kom í ljós að brotið hafði verið á Josko Gvardiol í aðdraganda marksins og það því dæmt af.

Heimamenn náðu þó forystunni fyrir hálfleik þegar Robert Lewandowski skallaði fyrirgjöf Kingsley Coeman í netið á 44. mínútu.

Staðan var því 2-1 í hálfleik, Bayern í vil, en gestirnir jöfnuðu metin á 53. mínútu með marki frá Christopher Nkunku eftir stoðsendingur frá Konrad Laimer.

Fimm mínútum síðar varð Josko Gvardiol svo fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið net og heimamenn í Bayern því komnir með forystuna í þriðja skiptið í leiknum.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og niðurstaðan því 3-2 sigur Bayern sem situr enn á toppi deildarinnar. Bayern er með 52 stig eftir 21 leik, níu stigum meira en Dortmund sem situr í öðru sæti.

RB Leipzig situr hins vegar í sjöunda sæti deildarinnar með 31 stig, þremur stigum minna en Union Berlin sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×