Elliot skoraði í endurkomunni er Liverpool fór áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harvey Elliott fagnaði marki sínu vel og innilega, enda ekki leikið fótbolta síðan í byrjun september á síðasta ári.
Harvey Elliott fagnaði marki sínu vel og innilega, enda ekki leikið fótbolta síðan í byrjun september á síðasta ári. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Liverpool tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum FA-bikarsins með 3-1 sigri á B-deildarliði Cardiff í dag. Harvey Elliott skoraði þriðja mark Liverpool í fyrsta leik sínum eftir löng meiðsli.

Eins og við var að búast voru það heimamenn í Liverpool sem réði ríkjum í upphafi leiks. Þeir sköpuðu sér nokkur góð færi til að taka forystuna, en inn vildi boltinn ekki og því var markalaust þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur byrjaði með látum þegar Caoimhin Kelleher, markvörður Liverpool, braut á Mark Harris utan vítateigs þegar sá síðarnefndi var við það að sleppa í gegn. Leikmenn Cardiff vildu fá rautt spjald á markvörðinn, en hann getur líklega talist heppinn með að hafa sloppið með gult.

Það dró svo til tíðinda á 53. mínútu þegar Diogo Jota kom heimamönnum í Liverpool yfir með því að skalla aukaspyrnu Trent Alexander-Arnold í netið.

Takumi Minamino tvöfaldaði forystu heimamanna á 68. mínútu eftir stoðsendingu frá nýja manninum Luis Diaz áður en Harvey Elliott kom Liverpool í 3-0 með marki átta mínútum síðar. Elliott hafði komið inn á sem varamaður eftir tæplega klukkutíma leik, en þetta var hans fyrsti leikur síðan hann fór úr ökklalið í september á síðasta ári.

Varamaðurinn Rubin Colwill klóraði í bakkann fyrir gestina þegar um tíu mínútur voru til leiksloka og þar við sat. Lokatölur urðu 3-1 og Liverpool mætir Norwich í 16-liða úrslitum í byrjun mars.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira