Erlent

Portúgalskir Sósíal­istar unnu ó­væntan sigur

Atli Ísleifsson skrifar
António Costa hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2015.
António Costa hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2015. EPA

Sósíalistaflokkurinn í Portúgal vann óvæntan sigur í þingkosningum sem fram fóru í landinu í gær. Þetta var í annað sinn í sögunni sem flokkurinn nær hreinum meirihluta á þingi.

António Costa, forsætisráðherra og formaður Sósíalistaflokksins, boðaði til kosninganna eftir að honum mistókst að ná fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið eftir að tveir smærri flokkar ákváðu að snúa baki við stjórninni.

Fyrir kosningarnar sagði Costa stöðugleika nauðsynlegan fyrir landið til að hægt yrði að tryggja efnahagslegan bata.

BBC segir frá því að hægriöfgaflokkurinn Chega hafi einnig bætt við sig mönnum og sé nú þriðji stærsti flokkurinn á þingi.

Úrslit kosninganna komu verulega á óvart eftir að skoðanakannanir dagana fyrir kosningar bentu til þess að dregið hefði úr stuðningi kjósenda við Sósíalistaflokkinn.

Sósíalistaflokkurinn tryggði sér 117 þingsæti af 230 möguleikum, níu fleiri en á síðasta þingi. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, náði inn 71 manni og Chega tólf.

Áætlað er að um tíundi hver Portúgali hafi verið í einangrun vegna Covid-19 um helgina, en stjórnvöld heimiluðu þeim kjósendum einnig að mæta á kjörstað. Klæddust starfsmenn kjörstaða sérstökum hlífðarbúnaði til að taka á móti Covid-sýktum kjósendum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×