Erlent

Konur þurfa bara að klæða sig meira

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konur mótmæla ummælum forsætisráðherrans í höfuðborginni Islamabad.
Konur mótmæla ummælum forsætisráðherrans í höfuðborginni Islamabad. epa/Shahzaib Akber

Imran Khan, forsætisráðherra Pakistan, hefur vakið hörð viðbrögð með ummælum sem hann lét falla um ástæður fjölda nauðgana í landinu. Ummælin lét hann falla í viðtali við blaðamann Axios.

Spurður um nauðgunarmenninguna sem virðist landlæg í Pakistan svaraði hann:

„Ef kona klæðist fáum fötum hefur það áhrif á menn, nema þeir séu róbótar. Það er bara almenn skynsemi.“

Fjöldi baráttuhópa í landinu hefur krafist þess að Khan biðjist afsökunar á ummælum sínum, þeirra á meðal Mannréttindaráð Pakistan, sem eru sjálfstæð samtök. 

„Þetta er hættuleg einföldun og styrkir þá útbreiddu ímynd að konur séu „meðvituð“ fórnarlömb og karlar „hjálparlausir“ gerendur,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Khan afhjúpar afstöðu sína til nauðgana en fyrr á árinu ráðlagði hann konum til að klæða sig meira til að koma í veg fyrir að vera nauðgað.

Spurður um þau ummæli sagðist hann vera að vísa til ákveðinnar hugmyndafræði í íslam, „purdah“; að draga úr freistingum, sem meðal annars mætti gera með því að hylja líkamann.

Fá ríki standa jafn illa að vígi og Pakistan þegar kemur að jafnrétti. Mótmæli hafa verið skipulögð um helgina vegna ummæla forsætisráðherrans en mótmæli brutust út á landsvísu í fyrra þegar lögreglustjóri skammaði fórnarlamb hópnauðgunar fyrir að aka bifreið að næturlagi án karlmanns.

Um var að ræða móður sem var nauðgað úti á götu, fyrir framan börnin sín, eftir að hún varð bensínlaus.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×