Innlent

Menningarnótt 21. ágúst nema faraldurinn setji aftur strik í reikninginn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Frá tónleikum Bylgjunnar á Menningarnótt 2018. 
Frá tónleikum Bylgjunnar á Menningarnótt 2018.  Vísir/Vilhelm

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að halda Menningarnótt þann 21. ágúst. Lagt er upp með að hátíðin verði með sama hætti og fyrri ár með fyrirvara um breytingar vegna sóttvarna. Verkefnastjóri Menningarnætur býst við að allt að þúsund viðburðir verði í boði.

Fresta þurfti Menningarnótt á síðasta ári vegna Covid-19 faraldursins en í ár hefur verið ákveðið að halda hátíðina. Guðmundur Birgir Halldórsson verkefnisstjóri hennar segir ákvörðunina tekna að vandlega íhuguðu máli .

Guðmundur Birgir Halldórsson verkefnisstjóri Menningarnætur.Vísir

„Við ákváðum að gera þetta eftir að hafa verið í samráði við sóttvarnaryfirvöld og fleiri. Við komust að þeirri niðurstöðu að þar sem þetta lítur afar vel út að halda okkar striki. En auðvitað erum við tilbúin að gera einhverjar breytingar ef eitthvað breytist,“ segir Guðmundur.

Aðspurður um hvort einhverjar breytingar verði gerðar á hátíðinni í ár svarar Guðmundur: 

„Við erum að hugsa hana eins og áður.  Einu fyrirvarar sem við setjum eru stærstu tónleikarnir. Hvort við þurfum hólfaskiptingu eða fjöldatakmarkanir þegar þeir verða haldnir.

Guðmundur segir að búast megi við gríðarmörgum viðburðum eins og áður.

„Ef allir viðburðir stórir og smáir eru taldir með hafa þeir náð allt að þúsund talsins og má búast við að sú tala verði einnig í ár,“ segir hann. 

Nú er verið að auglýsa eftir hugmyndum að viðburðum í Menningarnæturpott Landsbankans.

„Við erum með frest til 18. júní til að sækja um í pottinn. Ég vil bara hvetja fólk til að koma með góðar hugmyndir og taka þátt í Menningarnótt á fallegan og skemmtilegan máta,“ segir Guðmundur Birgir að lokum. 

Hér að neðan má sjá Pál Óskar koma fram í Garðpartýi Bylgjunnar á Menningarnótt 2018.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×