Fótbolti

Ståle eftir 3-0 tap: „Hörmung“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ståle klórar sér í gær.
Ståle klórar sér í gær. Burak Akbulut/Getty

Ståle Solbakken, þjálfari norska landsliðsins í knattspyrnu, var eðlilega ekki sáttur eftir 3-0 tap liðsins gegn Tyrkjum í undankeppni HM í gærkvöldi.

Liðin mættust á Malaga á Spáni en ekki var hægt að spila í Noregi vegna kórónuveirureglna. Heimavöllurinn á Malaga skilaði engu í kvöld.

„Vandamálið var að við vorum ekki ákafir. Hornspyrnumarkið var hörmung. Við höfum æft þetta mikið,“ sagði Ståle í samtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2.

„Allar hornspyrnurnar enduðu á fjærstönginni og þar voru allir okkar stærstu leikmenn svo þetta var lærdómur fyrir okkur.“

„Við fáum einnig högg í andlitið. Alex [Sorloth] skýtur í stöngina og Moi [Elyounoussi] fær færi. Þetta er eitthvað af því sem ég hef séð í sjónvarpinu áður en ég kom í þetta viðtal.“

Noregur mætir Svartfjallalandi á þriðjudag og þarf nauðsynlega á þremur stigum að halda.

„Það var einungis smá munur á liðunum tveimur. Við þurfum að sækja þrjú stig á þriðjudag svo þetta verði ekki vonlaust þegar við hittumst aftur,“ bætti Ståle við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×