Fótbolti

Segir að leikurinn í kvöld fari örugglega fram eins og staðan er núna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frá æfingu þýska liðsins.
Frá æfingu þýska liðsins. epa/FRIEDEMANN VOGEL

Talsmaður þýska knattspyrnusambandsins segir að eins og staðan sé núna fari leikur Þýskalands og Íslands í undankeppni HM 2022 í kvöld örugglega fram.

Í morgun bárust fréttir af því Jonas Hofmann, leikmaður Borussia Mönchengladbach, hafi fengið jákvæða niðurstöðu út úr kórónuveiruprófi sem þýska liðið fór í.

Í frétt Bild kemur fram að Marcel Halstenberg, leikmaður RB Leipzig, þurfi að fara í sóttkví þar sem hann hafi verið í mestum samskiptum við Hofmann.

Líklegt þykir að leikmenn þýska liðsins verði látnir gangast undir annað kórónuveirupróf strax til að fá niðurstöðu sem fyrst.

Í samtali við Vísi í morgun sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, að það væri í höndum UEFA að ákveða hvort leikurinn í kvöld færi fram. Samkvæmt reglum FIFA þarf lið að hafa fjórtán leikfæra leikmenn, þar af einn markvörð, til að leikur geti farið fram.

Í hádeginu sagði Jens Grittner, talsmaður þýska knattspyrnusambandsins, að leikur kvöldsins færi „örugglega fram eins og staðan væri núna“.

Framkvæmdastjóri þýska liðsins, Olivier Bierhoff, sagði erfitt að þessi staða hafi komið upp svona stuttu fyrir leik en var bjartsýnn á að ekki kæmu fleiri smit en þetta eina upp. Hann sagði jafnframt að þýska liðið hafi passað vel upp á sóttvarnir og muni hlýða öllum fyrirmælum þýskra yfirvalda.

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, valdi 26 leikmenn í sinn hóp. Eins og staðan er núna standa 23 leikmenn eftir. Hofmann og Halstenberg hafa hrokkið úr skaftinu eins og áður sagði og þá dró Toni Kroos sig út úr þýska hópnum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×