Erlent

Þýskir gjörgæslulæknar vilja hertar sóttvarnaaðgerðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Covid-19 sjúklingur fluttur á gjörgæslu í Þýskalandi með þyrlu.
Covid-19 sjúklingur fluttur á gjörgæslu í Þýskalandi með þyrlu. EPA/Vincent Jannink

Yfirmaður samtaka gjörgæslulækna í Þýskalandi kallaði í morgun eftir því að samkomubanni yrði aftur komið á í landinu. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að þriðja bylgja faraldurs nýju kórónuveirunnar verði of öflug þar í landi.

Yfirmaður sóttvarnastofnunar Þýskalands lýsti því yfir í síðustu viku að þriðja bylgjan væri hafin.

Í útvarpsviðtali í morgun sagði Christian Karagiannidis, yfirmaður DIVI, samtaka gjörgæslulækna í Þýskalandi, að gögnin yfir dreifingu nýju kórónuveirunnar og það að breska afbrigðis svokallaða, sem dreifist auðveldar manna á milli, sé orðið útbreiddara í Þýskalandi, sé eina vitið að grípa aftur til samkomubanns.

AFP fréttaveitan hefur eftir Karagiannidis að án aðgerða núna, verði mun erfiðara að ná tökum á ástandinu eftir eina eða tvær vikur.

Hann sagði að síðustu tölur sýndu að um 2.800 manns væru á gjörgæslu í Þýskalandi en varaði við því að þeir gætu orði fimm eða sex þúsund án aðgerða og samkomubanns.

DW segir að sjö daga nýgengi greindra smita í Þýskalandi hafi aukist töluvert síðustu daga og hafi á laugardaginn verið 76,1 á hverja hundrað þúsund íbúa. Viku áður hafi nýgengið verið 65,6.

Dregið var út sóttvarnaraðgerðum í Þýskalandi í síðustu viku en ráðherrar sammældust um að ströngustu aðgerðir yrðu sjálfkrafa settar á ef nýgengið færi yfir hundrað.

Þrátt fyrir það hafa ráðamenn í tveimur ríkjum Þýskalands, Brandenborg og Norðurrín-Vestfalíu, lýst því yfir að ekki sé þörf á hertum sóttvarnaraðgerðum og samkomubanni, jafnvel þó nýgengið færi yfir hundrað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×