Simon Kjær bjarg­vættur AC Milan á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Simon Kjær var einn og óvaldaður er hann jafnaði metin fyrir AC Milan.
Simon Kjær var einn og óvaldaður er hann jafnaði metin fyrir AC Milan. EPA-EFE/Peter Powell

Manchester United og AC Milan gerðu 1-1 jafntefli í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Varamaðurinn Amad Diallo kom Man Utd yfir en Simon Kjær jafnaði metin í uppbótartíma fyrir gestina frá Mílanó. Önnur úrslit kvöldsins má einnig finna hér að neðan.

Gestirnir frá Mílanó-borg hófu leik af miklum krafti og skoruðu tvívegis snemma leiks. Bæði mörkin þó dæmd af. Annars vegar vegna rangstöðu og hins vegar vegna hendi í aðdragandanum.

Harry Maguire fékk svo gullið tækifæri til að koma heimamönnum yfir þegar Gianluigi Donnarumma – markvörður AC Milan – misreiknaði hornspyrnu Alex Telles og sló boltann í raun fyrir fætur Maguire sem tók hlaupið á fjær.

Miðvörðurinn var svo gott sem kominn inn í markið þegar hann setti vinstri fótinn í boltann sem fór á einhvern óskiljanlegan hátt í stöng og út. Ótrúlegt klúður í alla staði. Staðan því enn 0-0 er flautað var til hálfleiks.

Amad Diallo kom inn af varamannabekk Man United fyrir Anthony Martial í hálfleik. Amad var rétt búinn að vera inn á í fjórar mínútur þegar hann kom heimamönnum yfir.

Bruno Fernandes lyfti boltanum fullkomlega yfir vörn Milan og Amad stakk sér inn fyrir og flikkaði boltanum yfir Donnarumma í marki gestanna. Staðan orðin 1-0 og Daniel James hefði að öllum líkindum átt að koma heimamönnum í 2-0 eftir sendingu Mason Greenwood seint í síðari hálfleik.

Allt kom þó fyrir ekki og undir lok leiks jöfnuði gestirnir. Eins og svo oft áður vefjast föst leikatriði fyrir Manchester United og danski miðvörðurinn Simon Kjær stangaði hornspyrnu  Rade Krunić í netið. Setja má spurningamerki við Dean Henderson í marki Man United en skallinn var beint á hann.

Lokatölur á Old Trafford því 1-1 og AC Milan í frábærum málum fyrir síðari leik liðanna.

Önnur úrslit

Ajax 3-0 Young Boys

Dinamo Kiev 0-2 Villareal

Slavia Prag 1-1 Rangers


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira