Erlent

Einn dó og átta særðust í eldflaugaárás á herstöð Bandaríkjamanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Þrjár eldflaugar lentu í herstöðinni og minnst þrjár aðrar á íbúðasvæði.
Þrjár eldflaugar lentu í herstöðinni og minnst þrjár aðrar á íbúðasvæði. GETTY/Yunus Keles

Einn lét lífið og minnst átta eru særðir eftir að eldflaugum var skotið að herstöð í Írak, þar sem bandarískir hermenn halda til, í gærkvöldi. Sá sem dó var verktaki og einn bandarískur hermaður er meðal hinna særðu en hann fékk heilahristing.

Herstöðin er í norðurhluta Írak, í borginni Irbil á yfirráðasvæði Kúrda.

Talsmaður aðgerða Bandaríkjahers gegn Íslamska ríkinu sagði í morgun að fjórtán 107 mm eldflaugum hefði verið skotið á herstöðina og þrjár hefðu lent í henni. Þrjár eldflaugar eru sagðar hafa lent á íbúðasvæði nærri herstöðinni og flugvelli Irbil.

Spenna milli hersveita Bandaríkjanna og írakskra og kúrdískra bandamanna þeirra annars vegar og hersveita sem studdar eru af Íran hins vegar hefur aukist verulega á undanförnum árum.

Tiltölulega lítið þekkt sveit, sem kallast Awliya al-Dam, eða Verjendur blóðs, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Sú sveit tengist yfirvöldum í Íran og Hezbollah. Samkvæmt frétt Guardian ber sveitin einnig ábyrgð á tveimur sprengjuárásum á bílalestir Bandaríkjanna í Írak síðasta sumar.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir á kjörtímabili sínu að árásir á bandaríkjamenn myndu leiða til umfangsmikilla loftárása Bandaríkjanna á sveitir Írana í Írak. Þegar bandarískur verktaki dó í Kirkuk árið 2019 svaraði Trump fyrir þá árás með því að ráða hershöfðingjann Qassem Soleimani af dögum í loftárás í Írak og Abu Mahdi al-Muhandis, sem leiddi valdamikla sveit í Írak.

Sjá einnig: Bandaríkin réðu einn valdamesta mann Írans af dögum

Barham Saleh, forseti Íraks, hefur fordæmt árásina og sagði í yfirlýsingu að um hættulega stigmögnun væri að ræða.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að rannsókn muni fara fram og þeir sem hafi skotið eldflaugunum verði dregnir til ábyrgðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×