Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan - ÍBV 30-29 | Dramatík í Garða­bæ

Andri Már Eggertsson skrifar
Stjarnan - KA Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020
Stjarnan - KA Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020 Foto: Hulda Margrét Óladóttir

Þó lítið hafi bent til þess framan af leik urðu lokamínúturnar í TM höllinni æsispennandi og fengu ÍBV seinustu sókn leiksins til að jafna leikinn en skot Dags er varið frá Tandra og Stjarnan vann sinn annan leik í röð.

Stjarnan stillti upp í heldur frábrugðið hornamanna par en við mátti búast. Starri Friðriksson og Hjálmtýr Alfreðsson byrjuðu í hornunum. Þeir svöruðu báðir kallinu og byrjuðu leikinn af krafti með því að skora sameiginlega þrjú af fyrstu fjórum mörkum Stjörnunnar.

Stjarnan náðu sér í gott forskot eftir að rúmlega korter var liðið af leiknum. ÍBV fór að klikka heldur auðveldlega sem Stjarnan nýtti sér vel og komst fimm mörkum yfir 11 - 6.

Hin 16 ára Elmar Erlingsson kom inná í fyrri hálfleik í liðið ÍBV, Elmar sýndi góða takta og fór hann illa með vörn Stjörnunnar í eitt skipti sem skilaði honum góðu marki.

Stjarnan var að spila frábærlega í fyrri hálfleik og mátti segja að allt hafi dottið með þeim á báðum endum vallarins. Fyrri hálfleikurinn endaði síðan á tilþrifum frá Björgvin Hólmgeirssyni þar sem hann skoraði laglegt flautu mark og var staðan 17 -13 í hálfleik.

ÍBV náðu ekki að þjappa sér saman í hálfleik þar sem liðið var mjög slakt sóknarlega þegar seinni hálfleikurinn hófst, ÍBV skoraði aðeins tvö mörk fyrstu tíu mínúturnar í seinni og var lítið sem benti til þess að þetta yrði jafn leikur.

Stjarnan voru fimm mörkum yfir þegar tæplega tíu mínútur voru eftir af leiknum en þá kom karakter Eyjamanna í ljós og tóku þeir gott áhlaup sem skilaði sér í mjög jöfnum loka mínútum og fékk ÍBV seinasta tækifæri leiksins til að jafna leikinn en það endaði með slöku færi Dag Arnarssonar sem skaut í vörn Stjörnunnar.

Af hverju vann Stjarnan?

Þó leikurinn hafi verið jafn undir lokinn var leikurinn alveg í eign Stjörnunnar og spiluðu þeir heilt yfir talsvert betur en ÍBV sem komst aldrei yfir í leiknum. Stjarnan hefur verið í vandræðum í jöfnum leikjum á lokamínútunum en reynslan hefur kennt þeim að loka leikjum sem skilaði sér með sigri í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Tandri Már Konráðsson er bæði stálið og hnífurinn í liði Stjörnunnar, hann var sá sem dróg vagninn þegar mest á reyndi bæði varnar og sóknarlega sem skilaði sér í 8 mörkum.

Starri Friðriksson var í byrjunarliði Stjörnunnar í kvöld, Starri greip tækifærið á lofti og gerði mjög vel úr sínu, hann setti tóninn strax í upphafi leiks sem gaf Stjörnunni mikið vítamín og skilaði á endanum 5 mörkum í heildina.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikur ÍBV var mjög dapur á öllum sviðum, þeir áttu mjög erfitt með að leysa vörn Stjörnunnar og var uppstilltur sóknarleikur þeirra ekki til framdráttar.

Eftir að hafa aðeins skorað 13 mörk í fyrri hálfleik mættu þeir í seinni hálfleikinn mjög linir og skoruðu þeir aðeins tvö mörk á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks.

Vítanýting ÍBV var ekki góð þar sem þeir klikkuðu á þremur vítum í röð á tímapunkti sem þeir hefðu getað komið sér betur inn í leikinn, það er ekki venjan á að Hákon Daði klikki á tveimur vítum og Kári einu þar sem þeir eru báðir mjög góðir á vítalínunni.

Hvað er framundan?

Sökum HM í Egyptalandi þurfti að fresta leikjum í Olís deildinni og er Stjarnan því að spila á fimmtudaginn næsta á móti Aftureldingu klukkan 19:30 í beinni á Stöð 2 Sport.

Næsti leikur ÍBV er á sunnudaginn næsta á móti KA og má búast við að ÍBV muni gera allt til að komast aftur á beinu brautina.

Kristinn Guðmundsson: Leikmönnum líða ekki vel inná vellinum

„Við erum í vandræðum meiri hluta leiksins bæði varnar og sóknarlega, við erum ekki nógu vissir í því hvað við viljum gera á vellinum og verðum við að finna leið til að mönnum líði betur á vellinum,” sagði Kristinn svekktur með tapið.

„Við erum að spila á móti flottu liði Stjörnunnar, við erum með of mikið af slæmum ákvörðunum á vellinum, þetta er annar leikurinn í röð sem við förum með lokasókn eftir leikhlé. Við þjálfarannir þurfum að laga þetta og finna lausnar til að hjálpa liðinu,” sagði Kristinn um það hvers vegna mönnum líði illa á vellinum.

ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn mjög illa sóknarlega, liðið skoraði aðeins tvö mörk á tíu mínútum og var það þver öfugt við það sem talað var um í hálfleik.

„Þeir stóðu vel á okkur og vorum við ekki nógu ákveðnir í okkar aðgerðum sem eru hlutir sem við verðum að vinna í enda fullt af leikjum framundan og vonandi sjáum við bætingu í því næst þegar við spilum.”

Tandri Már Konráðsson: Fórum upp á heilsugæslu eftir ÍR leikinn og fengum rotvarnarefni

„Ég er mjög ánægður með sigurinn, við sínum ákveðinn karakter þó þetta hafi ekki verið sannfærandi en það eru stigin sem telja að leikslokum.”

„Við vissum að það væri erfitt að spila á móti þeirra þekktu vörn sem við leystum ágætlega, við vorum góðir varnarlega og átti Adam markmaður góðan leik,” sagði Tandri ánægður eftir leik.

Stjarnan missti flugið sem þeir voru á framan af leik og jafnaði ÍBV leikinn þegar skammt var eftir af leiknum sem endaði síðan með háspennu leik.

„Það koma alltaf sveiflur í svona leikjum og er okkar vinna núna að minnka lélegu kaflana, í þessum kafla vorum við að taka heimskulegar ákvarðanir og skjóta illa sem skilar sér í hraðahlaupum sem ÍBV eru bestir í.”

Tandri sagði að þeir ræddu um það í hálfleik að þétta vörnina og halda því sem frá var horfið í fyrri hálfleik því hann gekk vel.

Dagskrá Stjörnunnar er þétt þessa dagana og er næsti leikur á móti Aftureldingu á fimmtudaginn sem var frestaður vegna HM í Egyptalandi.

„Eftir seinasta leik á móti ÍR fórum við upp á heilsugæslu og fengum þar rotvarnarefni þar sem búið er að lengja lífið hjá okkur öllum,” sagði Tandri léttur og skaut á Kristinn Björgúlfsson sem sagði að Stjarnan væri með útbrunna leikmenn.

Patrekur tók við liði Stjörnunnar í sumar.vísir/hulda margrét

Patrekur Jóhannesson: Við tókum allt í einu upp á því að fara í körfubolta

Stjarnan vann sinn annan leik í röð í kvöld. ÍBV mætti í TM höllina og var þetta háspennu leikur sem endaði með dramatík og gat ÍBV jafnað í lokasókn leiksins en það var innihaldslaus sókn sem fór í vaskinn og Stjarnan vann 30 - 29.

„Við spiluðum mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við spiluðum mjög vel sóknarlega vorum ekki að kasta boltanum frá okkur, Adam var að verja vel. ÍBV kom með gott áhlaup og hefði leikurinn alveg getað endað með jafntefli,” sagði Patti hæstánægður með sigurinn.

Stjarnan vann í kvöld sinn annan sigur í röð og er þetta í fyrsta sinn á tímabilinu sem liðið tengir saman tvo sigra.

„Þetta eru frábærir strákar sem ég er með. Á móti Selfoss erum við yfir og hendum leiknum frá okkur einnig á móti FH sem við hefðum átt skilið að vinna, en í kvöld lokuðum við leiknum og er ég hrikalega kátur með strákana.”

„Mér fannst ÍBV spila vel síðustu tíu mínútur leiksins, það losnaði um Kára, ég er mjög svekktur með hvernig við breyttum allt í einu um skipulag og vill ég ekki neinn körfubolta við erum hér til að spila handbolta. Stressið er líklega þess valdandi að við fórum að drippla mikið.

„Við verðum bara að kunna að fara með forrystu, okkur langar að vera yfir í leikjum, þá verða menn bara að sætta sig við það og taka stöðunum sem koma upp. Þeir spiluðu síðan með Kára Kristján í 6-0 vörn en með fullri virðingu fyrir honum þá liggur styrkur hans sóknarlega,” Sagði Patti aðspurður hvað veldur því að liðið slakar á og hleypir ÍBV inn í leikinn.

Patrekur hreyfði við sínu algenga byrjunarliði í kvöld með að byrja með Hjálmtý Alfreðsson og Starra Friðriksson í hornunum. Þetta var gert til þess að nota hópinn þar sem Patrekur hefur trú á öllu sínu liði og er dagskrá Stjörnunnar farinn að þéttast enn frekar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira