Enski boltinn

Topp­liðin töpuðu óvænt bæði og Man City vann stór­leik helgarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lauren Hemp tryggði City sigurinn með frábæru skallamarki.
Lauren Hemp tryggði City sigurinn með frábæru skallamarki. Catherine Ivill/Getty Images

Chelsea og Manchester United töpuðu bæði mjög óvænt leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni kvenna megin í dag. Þá vann Manchester City stórleik helgarinnar er liðið lagði Arsenal á útivelli.

Chelsea og Manchester United töpuðu bæði mjög óvænt leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni kvenna megin í dag. Þá vann Manchester City stórleik helgarinnar er liðið lagði Arsenal á útivelli.

Chelsea hafði ekki tapað heimaleik í rúm tvö ár og Man Utd hafði farið ár án þess að tapa á heimavelli.

Manchester United fékk Reading í heimsókn og tapaði óvænt 0-2. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Natasha Harding gestunum yfir um miðbik síðari hálfleiks og tveimur mínútum síðar var staðan orðin 0-2 eftir að Danielle Carter tvöfaldaði forystu Reading.

Fleiri urðu mörkin ekki og fór Reading með sigur af hólmi. Um var að ræða fyrsta tap Man Utd á heimavelli í rúmt ár.

Leikur Chelsea og Brighton byrjaði af miklum krafti. Sam Kerr kom Chelsea yfir strax á fimmtu mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Aileen Whelan metin. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún allt fram á 78. mínútu þegar Megan Connolly skoraði sigurmarkið fyrir Brighton beint úr hornspyrnu.

 Lokatölur 1-2 og fyrsta tap Chelsea á heimavelli í rúm tvö ár staðreynd.

Stórleikur helgarinnar var svo leikur Arsenal og Manchester City. Ellen White kom City yfir á 24. mínútu og leiddu gestirnir 1-0 í hálfleik. Caitlin Ford jafnaði metin fyrir Arsenal snemma í síðari hálfleik en Lauren Hemp tryggði City sigurinn með marki þegar tíu mínútur lifðu leiks. Lokatölur 2-1 City í vil í hörkuleik.

Staðan á toppi deildarinnar er einkar jöfn en Chelsea og Man United eru bæði með 32 stig en United leikið leik meira. Man City kemur þar á eftir með 23 stig með leik til góða á City og tvo á Man Utd. Arsenal er svo í fjórða sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×