Fótbolti

Mikil­vægur sigur hjá Lyon á meðan hvorki gengur né rekur hjá Le Havre

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk og stollur hennar unnu mikilvægan sigur í dag.
Sara Björk og stollur hennar unnu mikilvægan sigur í dag. Lyon

Sara Björk Gunnarsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir voru í eldlínunni í frönsku úrvalsdeildinni í dag. Sara Björk lék allan leikinn á miðju Lyon er liðið vann 2-1 sigur á Montpellier. Anna Björk var í miðverði Le Havre sem tapaði enn einum leiknum.

Það tók Lyon aðeins fjórar mínútur að komast yfir þökk sé marki Amandine Henry er hún fylgdi eftir vítaspyrnu Dzsenifer Marozsán. Gestirnir jöfnuðu metin aðeins tveimur mínútum síðar er Clarisse Le Bihan kom boltanum í netið.

Sakina Karchaoui kom Lyon aftur yfir þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Staðan því 2-1 er liðin gengu til búningsherbergja. Ekkert var skorað í síðari hálfleik og því lauk leiknum með 2-1 sigri Lyon.

Le Havre tapaði 0-1 á heimavelli fyrir Guingamp. Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir voru ekki í leikmannahópi Le Havre í dag.

Lyon er sem fyrr í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir PSG. Le Havre situr svo sem fastast á botni deildarinnar með aðeins fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×