Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fram 34-28 | Haukar keyrðu yfir Fram í síðari hálfleik

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Haukar unnu góðan sigur á Fram, er liðin mættust í 8. umferð Olís-deildar karla í dag. Haukar fóru þremur mörkum yfir í hálfleik, 20-17. Þeir gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik og lokatölur leiksins, 34-28.

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins. Þegar um stundarfjórðungur var liðinn fóru Haukar að sigla fram úr og þá reyndi Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram að grípa í taumanna en gekk lítið.

Andri Sigmarsson Scheving leyst Björgvin Pál af í markinu og fór að klukka mikilvæga bolta en Fram voru einnig að klikka á færum. Hálfleikstölur, 20-17.

Þegar flautað var til seinni hálfleiks virtust Framarar töluvert einbeitari og náðu að minnka muninn í eitt mark. Þá hrökk varnarleikur Hauka í gang og áttu Framarar erfitt með að finna markið. Haukar unnu því með 6 mörkum, 34-28.

Afhverju unnu Haukar?

Haukar voru að spila góðan sóknarleik allan leikinn en vantaði aðeins upp á varnarleik þeirra í fyrri hálfleik. Um leið og hann hrökk í gang var ekki aftur snúið. Samspilið milli Andra og varnarinnar var virkilega gott og gerði út um leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Haukum var það Andri Sigmarsson Scheving sem kom gríðarlega öflugur inn í markið hjá Haukum, var með 40% markvörslu og tvö varin víti. Darri Aronsson var öflugur í varnarleik Hauka sem og í sókninni og skoraði 9 mörk. Orri Freyr Þorkelsson var með 8 mörk.

Hjá Fram voru það Vilhelm Poulsen og Þorgrímur Smári Ólafsson með 5 mörk hvor. Stefán Darri Þórsson var með 4 mörk. Lárus Helgi var ágætur í markinu og tók mikilvæga bolta í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Fram var ekki nógu góður og ekki eins og hann hefur verið í síðustu leikjum. Markverðirnir náðu sér ekki á strik og hægt að skrifa það að hluta til á slakan varnarleik.

Hvað er framundan?

Sunnudaginn 14. febrúar kl. 19:30 fá Framarar, Selfoss í heimsókn og verður leikurinn sýndur á Stöð2sport.

Það verður Hafnarfjarðarslagur í Kaplakrika þegar Haukar sækja FH-inga heim, mánudaginn 15. febrúar kl. 19:30 og verður leikurinn einnig sýndur á Stöð2sport.

Sebastian Alexandersson: það er klárlega getumunur á Haukum og okkur

Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, var svekktur eftir 6 marka tap sinna manna á móti Haukum í dag.

,,Ég er alltaf svekktur þegar ég tapa. Mér er alveg sama hvort maður sé með betra liðið eða verra liðið, mér er alveg sama um það. Við fengum séns í byrjun seinni hálfleiks til að gera eitthvað, breyta þessum leik okkur í hag en þá klikkum við á nokkrum frábærum færum. Svekkelsi sem setti okkur út úr takt í vörninni, við vorum loksins búnir að spila vörnina eins og við ætluðum að gera og hættum að hlaupa út og suður. Það er það sem þeir vilja,“ sagði Sebastian í leikslok.

,,Þetta er gríðarlega þungt lið, líkamlega sterkt og menn þreytast. Við reyndum að skipta mikið en það er klárlega getumunur á Haukum og okkur og við þurfum betri dag en þetta til að eiga séns. Ég hefði samt viljað að við hefðum nýtt betur færin og haldið þeim betur við efnið, hver veit þá hefðu þeir kannski byrjað að panikka.“

Varnarleikur Fram hefur verið gríðarlega góður í síðustu tveimur leikjum en þeir virtust eiga erfitt með að ná sér á strik í dag.

,,Ég meina, varnarleikurinn er búinn að vera frábær í vetur og við höfum varla verið að fá yfir 22/23 mörk á okkur. Mér fannst við ekkert slakir í dag. Haukar hittu bara á frábæran dag og höfðu svör við því sem við vorum að gera. Við hjálpuðum svo sem ekki til við það að við vorum að breyta því sem við ætluðum að gera í vörn og það eru vissulega vonbrigði að varnarleikurinn og markvarslan var ekki þar sem við viljum sjá hana.“

,,Sóknarlega getum við verið jákvæðir. Þetta er það mesta sem við höfum skorað í vetur og það á móti frábæru liði, besta markmannspari í deildinni og má ekki gleyma því að við skoruðum 28 mark en vorum samt með um 10 færi sem fara forgörðum.“

Fram tekur á móti Selfoss í næstu umferð, sunnudaginn 14. febrúar kl. 19:30

,,Ég hefði alveg kosið það að mæta Haukum og Selfoss á öðrum tímapunkti. Við erum nýbúnir að vinna tvo leiki, en staðreyndin er sú að Selfoss er með langbesta byrjunarliðið í deildinni og Haukar með langbesta hópinn í deildinni. Mér finnst bara Haukar og Selfoss með tvö langbestu liðin í deildinni í dag og það er kannski fúlt að vera fá þessi tvö lið á þessum tímapunkti, þegar við erum loksins að komast í gang. En þetta er bara verkefni og við verðum bara að reyna,“ sagði Sebastian að lokum.

Andri Sigmarsson Scheving: Þetta er nátturulega bara teamwork hjá mér og Bjögga

Andri Sigmarsson Scheving, markmaður Hauka fór á kostum í markinu þegar Haukar mættu Fram á Ásvöllum í dag. Andri var með 40% markvörslu og 2 varin víti.

,,Ég er mjög glaður og það er gaman að vinna og ná að leggja eitthvað í púkkið,“ sagði Andri í leikslok.

,,Þetta er nátturulega bara teamwork hjá mér og Bjögga. Vörnin var léleg í byrjun, svo fór hún að þéttast þegar að leið á leikinn og ég náði að nýta það með því að taka nokkra bolta.“

Varnarleikur Hauka var ekki nógu góður í fyrri hálfleik eins og fyrr segir og náði Björgvin sér ekki á strik.

,,Það sem er munurinn í fyrri og seinni hálfleik er að vörnin þéttist, þá kom meira af auðveldari boltum heldur en í fyrri,“ sagði Andri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira