Umfjöllun og viðtöl: Valur - Sel­foss 24-30 | Rasimas rosalegur í sigri Selfyssinga á Hlíðarenda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vilius Rasimas varði frábærlega þegar Selfoss vann Val.
Vilius Rasimas varði frábærlega þegar Selfoss vann Val. vísir/hulda margrét

Selfoss vann öruggan sex marka sigur á Val, 24-30, í fyrsta leik sínum í Olís-deild karla í 125 daga. Vilius Rasimas átti frábæran leik í marki Selfyssinga og varði 21 skot, eða 48 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Ragnar Jóhannsson skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss í áratug og fyrsta leiknum á Íslandi síðan 2015.

Þetta var annar sigur Selfyssinga í röð. Valsmenn hafa hins vegar tapað síðustu tveimur leikjum sínum.

Valsmenn byrjuðu leikinn í kvöld ágætlega og komust í 3-2. Það var í síðasta sinn sem þeir voru yfir í leiknum. Selfyssingar skoruðu þá fjögur mörk í röð og náðu góðu taki á leiknum. Selfyssingar voru mun sterkari um miðbik fyrri hálfleiks og náðu mest fimm marka forskoti.

Valsmenn komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleik, aðallega fyrir tilstuðlan Martins Nagy sem varði vel eftir að hann kom inn á fyrir Einar Baldvin Baldvinsson sem náði sér ekki á strik.

Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-15. Valur byrjaði seinni hálfleikinn vel og minnkaði muninn í eitt mark, 15-16. Þá kom frábær kafli hjá Íslandsmeisturunum sem skoruðu fjögur mörk í röð og náðu fimm marka forskoti, 15-20. 

Eftir þetta var róður Valsmanna þungur. Þeir gáfust þó ekki upp en komust aldrei nær Selfyssingum en tveimur mörkum. Rasimas varði eins og óður maður meðan allt lak inn hjá markvörðum Vals. Guðmundur Hólmar Helgason steig svo fram og skoraði mikilvæg mörk fyrir Selfoss undir lokin.

Selfyssingar héldu vel á spilunum á lokakafla leiksins og lönduðu sex marka sigri, 24-30.

Af hverju vann Selfoss?

Klassískt, vörn og markvarsla. Varnarleikur Selfoss er miklu betri en á síðasta tímabili og markvarslan er miklu, miklu betri. Rasimas var magnaður í marki meistaranna í kvöld, varði það sem hann átti að verja og svo haug af dauðafærum. Hann fór sérstaklega illa með vinstri hornamenn Vals í leiknum.

Sóknarleikur Selfoss var svo ekkert slor enda ekki heiglum hent að skora þrjátíu mörk gegn sterkri Valsvörn.

Hverjir stóðu upp úr?

Rasimas eins og fyrr sagði. Guðmundur Hólmar og Tryggvi Þórisson náðu vel saman í miðri vörninni og sá fyrrnefndi dró einnig sóknarvagninn undir lokin. Ragnar var svo hrikalega góður í endurkomuleiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Finnur Ingi Stefánsson var besti maður Vals og skoraði níu mörk. Nagy átti góðan fyrri hálfleik en datt niður í þeim seinni.

Hvað gekk illa?

Vignir Stefánsson vill eflaust eyða þessum leik sem fyrst úr minninu. Hann klúðraði fimm góðum færum og Rasimas var með hann í vasanum. Hann var þó ekki eini sóknarmaður Vals sem fann sig ekki í kvöld. Magnús Óli Magnússon hefur oftast leikið betur, sem og Anton Rúnarsson og Arnór Snær Óskarsson. Þá fékk Tjörvi Týr Gíslason dæmd á sig þrjú sóknarbrot á línu Vals.

Munurinn á markvörslu liðanna var líka mikill. Rasimas varði 21 skot (48 prósent) á meðan Nagy og Einar Baldvin vörðu samtals þrettán skot (30 prósent).

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik gegn nýliðum á sunnudaginn. Valur sækir þá Gróttu heim á meðan Selfoss fær Þór í heimsókn.

Snorri Steinn: Viljum ekki tapa með sex mörkum á heimavelli

Snorri Steinn Guðjónsson sagði ýmislegt hafa vantað upp á hjá Val gegn Selfossi.vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sagði að sínir menn hefðu einfaldlega ekki verið nógu góðir í tapinu fyrir Selfossi.

„Það vantaði smá gæði, skora úr færunum og meiri takt í sókninni,“ sagði Snorri. Þrátt fyrir sex marka tap hrósaði þjálfarinn sínum mönnum fyrir hugarfarið, þótt það hefði ekki fleytt þeim langt í kvöld.

„Ég er auðvitað hundfúll að tapa leik og það er eitthvað sem við sættum okkur ekki við. Við viljum ekki tapa með sex mörkum á heimavelli en ég ætla samt að hrósa þeim aðeins. Ég sá glitta í anda og neista hjá mínum mönnum og þeir börðumst allan leikinn og vildu þetta. En Selfoss var bara betri en við í dag. Hann [Vilius Rasima] varði töluvert í markinu,“ sagði Snorri.

„Auðvitað áttum við augnablik þar sem við gátum látið leikinn snúast okkur í vil en við vorum ekki nógu góðir. Við vorum að elta allan leikinn og Selfoss vann verðskuldað.“

Umræddur Rasimas fór mikinn í marki Selfoss og varð 21 skot (48 prósent), mörg hver úr dauðafærum. Snorri segir að frammistaða hans hafi þó ekki verið eini munurinn á Selfoss og Val í kvöld.

„Það er of mikil einföldun. Það eru margir í þessu Selfossliði sem eru góðir. Þeir spiluðu sterka vörn og voru þéttir. Við vorum í vandræðum með að leysa það og gerðum of mörg mistök. En klárlega dró hann verulega úr okkur tennurnar. Hann var með margar dúndurvörslur, sérstaklega á þessum kafla þar sem við vorum við það að snúa þessu okkur í hag,“ sagði Snorri.

Valur hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. „Ef ég tapa einum leik hef ég áhyggjur, þannig að ef ég tapa tveimur hef ég líka áhyggjur,“ sagði Snorri að lokum.

Halldór: Gríðarlega ánægður með okkur

Halldór Sigfússon ásamt aðstoðarmanni sínum, Erni Þrastarsyni.vísir/hulda margrét

Bjart var yfir Halldóri Sigfússyni, þjálfara Selfoss, eftir sigurinn á Val á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég er gríðarlega ánægður með okkur í kvöld. Þetta var fyrst og síðast frábær varnarvinna og svo var Vilius [Rasimas] frábær í markinu,“ sagði Halldór eftir fyrsta leik Selfoss í Olís-deildinni í fjóra mánuði.

„Það sást aðeins á okkur inn á milli í sókninni að við vorum aðeins stirðir sem er eðlilegt eftir langt hlé. En teymið vann gríðarlega góða vinnu meðan ég var í burtu og liðið er í góðu standi. Þetta er samt bara fyrsti leikur en ég tek þessi tvö stig fegins hendi.“

Ragnar Jóhannsson skoraði átta mörk úr tíu skotum í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss í tíu ár.

„Raggi var frábær í fyrri hálfleik og endaði leikinn mjög vel. Ég átti ekki endilega von á að hann myndi spila einhvern glansleik í kvöld, í fyrsta leik í deildinni, en hann kom virkilega sterkur inn eins og svo margir,“ sagði Halldór.

„Liðsheildin var sterk og fyrst og síðast var varnarleikurinn góður, við fengum hraðaupphlaup og gerðum fá tæknimistök.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira