Erlent

Norður-Makedónía formlega aðildarríki NATO

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fánar NATO og Norður-Makedóníu blakta hlið við hlið í höfuðborg ríkisins, Skopje.
Fánar NATO og Norður-Makedóníu blakta hlið við hlið í höfuðborg ríkisins, Skopje. Vísir/Getty

Norður-Makedónía varð í gær formlega þrítugasta aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, bauð ríkið velkomið í bandalagið á Twitter í gær.

„Norður-Makedónía er nú hluti af NATO-fjölskyldunni, fjölskyldu 30 ríkja og næstum milljarðs manna. Fjölskyldu sem byggir á þeirri vissu að sama hvaða áskorun við stöndum frammi fyrir, erum við sterkari og öruggari saman,“ sagði Stoltenberg í tilkynningu.

Norðurmakedónsk stjórnvöld sögðu þá í tilkynningu að draumur margra kynslóða væri loks að rætast, en það hefur lengi verið markmið ríkisins að öðlast aðild að bandalaginu. Það hefur hins vegar reynst erfitt, þar sem ríkið átti lengi vel í milliríkjadeilu við nágranna sína í suðri, Grikkland.

Deilan gekk einfaldlega út á þáverandi nafn Norður-Makedóníu, sem áður var einfaldlega Makedónía. Í Grikklandi er að finna héraðið Makedóníu, en Grikkir héldu því fram að í nafni ríkisins fælist tilkall til héraðsins. Það vildu grísk stjórnvöld ekki sætta sig við og beittu ítrekað neitunarvaldi sínu þegar nágrannaríkið falaðist eftir aðild að alþjóðastofnunum á borð við NATO.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×