Handbolti

Þýska deildin í meira en mánaðarfrí með tvo Íslendinga á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson er hér fyrir miðju en hann komst upp í efsta sæti markalistans með því að enda árið á tíu marka leik.
Bjarki Már Elísson er hér fyrir miðju en hann komst upp í efsta sæti markalistans með því að enda árið á tíu marka leik. Getty/Frank Molter

Tveir íslenskir landsliðsmenn eru í tveimur efstu sætunum á listanum yfir markahæstu leikmenn þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.

Þýska bundesligan í handbolta er komin í fjörtíu daga hlé vegna undankeppni EM og heimsmeistaramótsins í Egyptalandi.

Það er afar skemmtilegt fyrir okkur Íslendinga að skorða listann yfir markahæstu leikmenn deildarinnar nú þegar hlé verður gert á keppninni í meira en mánuð.

Íslensku landsliðsmennirnir Bjarki Már Elísson og Viggó Kristjánsson eru þar í efstu tveimur sætunum. Bjarki Már spilar með Lemgo en Viggó með TVB Stuttgart.

Bjarki Már Elísson hefur tveggja marka forskot á landa sinn, er með 107 mörk á móti 105 mörkum frá Viggó en Bjarki hefur líka leikið einum leik meira.

Bjarki Már komst upp í efsta sætið með því að skora tíu mörk í sigri Lemgo á Hannover-Burgdorf í síðasta leik ársins.

Bjarki varð eins og kunnugt er markakóngur þýsku deildarinnar á síðustu leiktíð.

Viggó Kristjánsson hefur bara leikið fimmtán leiki og er því með fleiri mörk að meðaltali í leik en Bjarki eða sjö í leik. Viggó hefur einnig gefið 30 stoðsendingar á leiktíðinni og er því að koma með beinum hætti að níu mörkum í leik.

Báðir eru þeir að skora mikið úr vítaköstum en Viggó er reyndar með átta fleiri vítamörk en Bjarki eða 39 á móti 27. Bjarki er því með fjórtán fleiri mörk utan af velli en hann er með langflest hraðaupphlaupsmörk í deildinni eða 37.

Ómar Ingi Magnússon er síðan í sjötta sæti á markalistanum með 81 mark en Ómar er líka stoðsendingahæstur íslensku leikmannanna í deildinni og er þar í 11. sæti í allri deildinni.

Ómar Ingi hefur komið með beinum hætti að 120 mörkum í fjórtán leikjum (81 mark og 39 stoðsendingar) eða 8,6 að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×