Enski boltinn

Veðjaði á 7-0 og 6-2 sigra Liverpool og United en guggnaði á síðustu stundu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United maðurinn Victor Lindelof fagnar sínu marki á Old Trafford í gær en þá var staðan orðin 4-0.
Manchester United maðurinn Victor Lindelof fagnar sínu marki á Old Trafford í gær en þá var staðan orðin 4-0. AP/Michael Regan

Getspakur knattspyrnuáhugamaður „sá“ fyrir 7-0 og 6-2 sigra hjá Liverpool og Manchester United um helgina og veðjaði á það. Hann hefði samt getað grætt miklu meiri pening en hann gerði.

Það er ekki hægt að segja annað en að stórsigrar Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni hafi komið flestum knattspyrnuáhugamönnum á óvart.

Liverpool vann sinn stærsta útisigur í sögunni þegar liðið vann 7-0 sigur á Crystal Palace í London á laugardaginn og Manchester United vann síðan 6-2 sigur á Leeds á Old Trafford í fyrsta leik liðanna í sextán ár.

Það er hægt að veðja á næstum því allt tengdu fótboltanum og einum ákveðnum knattspyrnuáhugamanni datt það ótrúlega í hug fyrir helgina að veðja á 7-0 sigur Liverpool og 6-2 sigur Manchester United í þessari umferð.

Hann sett reyndar bara tvö pund á þetta veðmál sitt eða 346 krónur. Kappinn var örugglega orðinn spenntur í gær þegar Liverpool var búið að vinna sinn leik 7-0 og United var komið í 4-1 á móti Leeds.

Veðmál kappans fór á flug á netinu enda stórmerkilegt að einhverjum hafi hreinlega dottið það í huga að veðja á þessi tvö úrslit. Spennan fór aftur á móti með hann.

Hinn getspaki Breti hefði unnið meira 40 þúsund pund (40.602), sjö milljónir íslenskra króna, ef hann hefði haldið út.

Viðkomandi guggnaði aftur á móti í stöðunni 4-1 fyrir Manchester United og ákvað að leyfa veðbankanum að kaupa sig út fyrir 2279 pund eða 394 þúsund krónur. Það er ekki slæmt fyrir 346 króna veðmál en lítur illa út í samanburði við það sem hann hefði fengið hefði hann haldið út.

Staðan var 4-1 þar til á 66. mínútu þegar United skoraði tvö mörk á fjórum mínútum. Leeds minnkaði síðan muninn þremur mínútum siðar og 6-2 sigur staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×