Handbolti

Þrír af sex markahæstu leikmönnum þýsku deildarinnar eru Íslendingar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson er næstmarkahæstur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.
Viggó Kristjánsson er næstmarkahæstur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. getty/Tom Weller

Þegar tímabilið er tæplega hálfnað eru þrír af sex markahæstu leikmönnum þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta Íslendingar. Þetta eru þeir Viggó Kristjánsson, Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon.

Viggó, sem leikur með Stuttgart, er næstmarkahæsti leikmaður þýsku deildarinnar. Hann hefur skorað 95 mörk, einu marki minna en Robert Weber, austurríski hornamaðurinn hjá Nordhorn-Lingen.

Marcel Schiller, leikmaður Göppingen, er í 3. sæti markalistans með 87 mörk. Í 4. sætinu er svo Bjarki Már með 84 mörk. Landsliðshornamaðurinn leikur með Lemgo.

Tekst Bjarka Má að verða markakóngur þýsku deildarinnar annað tímabilið í röð?getty/Uwe Anspach

Bjarki Már á markakóngstitil að verja en hann varð markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar á síðasta tímabili. Hann skoraði þá 216 mörk í 27 leikjum.

Uwe Gensheimer hjá Rhein-Neckar Löwen er í 5. sætinu á markalistanum með 68 mörk. Ómar Ingi er svo í 6. sætinu með 66 mörk.

Selfyssingurinn hefur leikið vel á sínu fyrsta tímabili hjá Magdeburg, sérstaklega í síðustu leikjum. Ómar Ingi skoraði ellefu mörk þegar Magdeburg sigraði Erlangen, 36-26, í gær.

Ómar Ingi er alltaf að spila betur og betur með Magdeburg.getty/Uwe Anspach

Auk þess að skora 66 mörk á tímabilinu hefur Ómar Ingi gefið 29 stoðsendingar og því komið með beinum hætti að 95 mörkum. Viggó hefur gefið 25 stoðsendingar og komið með beinum hætti að 120 mörkum, flestum allra í deildinni.

Viggó og Ómar Ingi hafa báðir skorað 36 mörk úr vítum en Bjarki Már er með 23 vítamörk.

Landsliðsmennirnir eru allir með afbragðs skotnýtingu. Viggó hefur nýtt 65 prósent skota sinna, Bjarki Már er með 71 prósent nýtingu og 67 prósent skota Ómars Inga hafa ratað rétta leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×