Handbolti

Missti fóstur á dögunum en var hetja norska kvennalandsliðsins í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrine Lunde var frábær í marki Norðmanna í gær.
Katrine Lunde var frábær í marki Norðmanna í gær. EPA-EFE/CLAUS FISKER

Þórir Hergeirsson kallaði á reynsluboltann Katrine Lunde fyrir leik norska kvennalandsliðsins á móti Rúmeníu á EM í gærkvöldi. Hún var valin maður leiksins.

Það eru margar ástæður fyrir því að Katrine Lunde ætti ekki að vera að spila með norska kvennalandsliðinu í handbolta í dag. Hún er auðvitað orðin fertug og búin að vinna allt á sínum ferli. Hún er líka nýbúin að ganga í gegnum mjög erfiða lífsreynslu.

Norski markvörðurinn Katrine Lunde ætlaði ekki að taka þátt í Evrópumótinu í handbolta því hún átti von á barni.

Aðstæðurnar breyttust snögglega þegar hún missti fóstrið á dögunum. Katrine Lunde setti strax stefnuna á að koma sér í sitt besta handboltaform og æfði gríðarlega vel eftir að hún missti fóstrið.

Þórir Hergeirsson valdi Katrine Lunde ekki í upphaflega EM-hópinn sinn en hún var á bakvakt. Þórir gerði síðan breytingu á hópnum í gær og kallaði á reynsluboltann sinn.

Það efast enginn um að Katrine Lunde er einn besti markvörður allra tíma og hún sýndi það í leiknum á móti Rúmeníu í gær að hún hefur engu gleymt.

Katrine Lunde hefur unnið sjö gullverðlaun og alls þrettán verðlaun á stórmótum með norska landsliðinu. Landsleikurinn í gær var númer þrjú hundruð en hún spilaði þann fyrsta árið 2002.

Katrine Lunde varði 15 skot í leiknum eða 43 prósent skotanna sem á hana komu. Hún varði líka 2 af 3 vítaköstum Rúmena. Það var jafnt í hálfleik en markvarsla Lunde í seinni hálfleik átti mikinn þátt í öruggum átta marka sigri.

Eftir leikinn var Katrine Lunde síðan valin maður leiksins af mótshöldurum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×