Fótbolti

Í fýlu yfir að fá ekki „sitt“ sæti í liðsrútunni og hent úr hóp fyrir Meistaradeildarleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emmanuel Dennis á ferðinni í fyrri leik Club Brugge og Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu.
Emmanuel Dennis á ferðinni í fyrri leik Club Brugge og Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu. getty/Jef Matthee

Nígeríski framherjinn Emmanuel Dennis verður ekki með Club Brugge í leiknum gegn Borussia Dortmund í F-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Ástæðan fyrir fjarveru Dennis er æði sérstök. Hann fór nefnilega í fýlu vegna þess að hann gat ekki setið á sínum uppáhalds stað í liðsrútu Club Brugge vegna sóttvarnaráðstafana. Dennis rauk í kjölfarið í burtu.

Philippe Clement, knattspyrnustjóri Club Brugge, var ekki sáttur með þetta upphlaup Dennis og hann var skilinn eftir heima þegar belgísku meistararnir fóru til Þýskalands. Dennis á einnig von á sekt fyrir framkomu sína.

Clement vildi lítið tjá sig um málið annað en það að Dennis hefði ekki fylgt settum reglum og hafi því ekki verið valinn í hóp Club Brugge fyrir leikinn á Westfalen leikvanginum í kvöld.

Club Brugge er með fjögur stig í 3. sæti F-riðils Meistaradeildarinnar. Liðið tapaði fyrri leiknum gegn Dortmund fyrir tveimur vikum, 0-3.

Dennis, sem er 23 ára, kom til Club Brugge frá Zorya Luhansk í Úkraínu 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×