Enski boltinn

Sautján ára leikmaður Dortmund gæti þreytt frumraun sína gegn Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham þykir gríðarlega efnilegur leikmaður.
Jude Bellingham þykir gríðarlega efnilegur leikmaður. getty/Matteo Ciambelli

Jude Bellingham, sautján ára leikmaður Borussia Dortmund, hefur verið kallaður inn í enska landsliðið í stað James Ward-Prowse sem er meiddur.

Bellingham átti upphaflega að vera í U-21 árs landsliði Englands en hefur nú verið valinn í A-landsliðið í fyrsta sinn.

England mætir Írlandi í vináttulandsleik á fimmtudaginn, Belgíu í Þjóðadeildinni á sunnudaginn og Íslandi í sömu keppni eftir viku.

Ef Bellingham kemur við sögu í þessum leikjum verður hann þriðji yngsti landsliðsmaður Englands frá upphafi. Theo Walcott á metið en hann var sautján ára og 75 daga þegar hann lék sinn fyrsta landsleik 2006. Wayne Rooney átti metið en hann var sautján ára og 111 daga er hann þreytti frumraun sína með landsliðinu.

Bellingham gekk í raðir Dortmund frá Birmingham City í sumar. Hann hefur farið vel af stað með þýska liðinu og skoraði m.a. í fyrsta leik sínum fyrir það. Bellingham er yngsti markaskorari í sögu Dortmund.

Ekki liggur enn fyrir hvort leikur Englendinga og Íslendinga geti farið fram á Englandi vegna sóttvarnareglna. Rætt hefur verið um leikurinn verði utan Englands og hafa Albanía og Þýskalandi verið nefnd í því samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×