Handbolti

Þórir kallar eftir sömu Covid-reglum fyrir allar á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur verið afar sigursæll sem þjálfari Noregs og stefnir sjálfsagt á verðlaun á EM í desember, hvort sem það verður í Noregi eða Danmörku.
Þórir Hergeirsson hefur verið afar sigursæll sem þjálfari Noregs og stefnir sjálfsagt á verðlaun á EM í desember, hvort sem það verður í Noregi eða Danmörku. Getty/Oliver Hardt

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, segir það ekki sanngjarnt að sum lið á EM í desember eigi frekar á hættu en önnur að lenda í sóttkví.

Til stendur að móti fari fram í Noregi og Danmörku en til greina kemur að mótið fari alfarið fram í Danmörku. Það er vegna þess að strangari sóttvarnareglur gilda í Noregi.

Norski miðillinn TV 2 benti á að ef smit greindist hjá leikmanni eða þjálfara liðs sem spili sína leiki í Noregi þá þyrfti allt liðið að fara í sóttkví, og jafnvel einnig lið mótherja. Í Danmörku þyrfti smitaður leikmaður vissulega að fara í einangrun en ekki endilega allt liðið í sóttkví.

„Reglurnar þurfa að vera eins í Noregi og Danmörku,“ segir Þórir við VG. Norski miðillinn greindi frá því á mánudag að til skoðunar væri að færa allt mótið til Danmerkur.

„Út frá þeirri hugsun að keppt sé á jöfnum grundvelli þá verða sömu reglur að gilda um alla. Það skiptir okkur mjög miklu máli. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða reglurnar innan vallar eða rammann sem settur er utan vallar á mótinu,“ segir Þórir.

Þórir segir að reglur tengdar smitfaraldrinum séu að sjálfsögðu mikilvægar varðandi EM:

„Þær setja rammann fyrir EM. Þess vegna er mikilvægt að þær séu svipaðar. Svo verða aðrir en ég að svara því hvort það er hægt. Þetta eru strangar reglur og það er vegna þess að stjórnvöld telja mikilvægt að svo sé. Við megum ekki gleyma að við erum hluti af einhverju mun stærra og megum ekki setja okkur á hærri stall en samfélagið allt,“ segir Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×