Erlent

Prófunum á Oxford-bóluefni frestað vegna aukaverkana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lyfjarisinn AstraZeneca hefur unnið að þróun bóluefnis við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla á Englandi.
Lyfjarisinn AstraZeneca hefur unnið að þróun bóluefnis við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla á Englandi. Getty/Lisa Maree Williams/Stringer

Lyfjarisinn AstraZeneca hefur nú frestað tímabundið lokaprófunum á bóluefni fyrir kórónuveirunni. Ástæða frestunarinnar er sú að einn þeirra sem tekið hafa þátt í prófunum á efninu fékk óútskýrðar aukaverkanir eftir að efninu hafði verið sprautað í hann.

AstraZeneca hefur unnið að þróun efnisins í samstarfi við Oxford-háskóla á Englandi. Fyrirtækið segir að það sé alvanalegt að þróun bóluefna sé frestað á þennan hátt en ekkert hefur verið gefið út um hvers kyns aukaverkanir var að ræða. Vonast er til að prófanir geti hafist að nýju innan nokkurra daga. Þetta er í annað sinn sem prófunum á efninu er frestað.

AstraZeneca hefur verið sá framleiðandi sem einna mestar vonir hafa verið bundnar við þegar kemur að þróun bóluefnis gegn veirunni. Bóluefnið hefur þegar komist í gegnum tvö stig prófana, að því er fram kemur í frétt BBC. Þriðja stigið, sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, felst í prófunum á um þrjátíu þúsund sjálfboðaliðum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Brasilíu og Suður-Afríku.

Lyfjarisinn gerði nýverið samning við Evrópusambandið um afhendingu bóluefnis til allra sambandsþjóða – þegar efnið lítur dagsins ljós. Ísland er aðili að þeim samningi.


Tengdar fréttir

Heita því að flýta ekki bóluefni um of

Níu evrópskir og bandarískir lyfjarisar hafa heitið því að fylgja í hvívetna vísindalegum viðmiðum við þróun bóluefnis vegna Covid-19 og að freistast ekki til þess að flýta þróun á kostnað gæða.

Vill ekki draga of víðtækar ályktanir af tilraun Rússa með bóluefni

Þátttakendur í fyrstu rannsókn rússneskra vísindamanna á bóluefni við kórónuveirunni mynduðu mótefni gegn veirunni og hlutu ekki alvarlegar aukaverkanir. Sóttvarnarlæknir telur þó varhugavert að draga of miklar ályktanir af rannsókninni þar sem þátttakendur voru fáir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×