Fótbolti

Rúmenar dóu ekki ráðalausir | Verða víða um Laugardalsvöll

Sindri Sverrisson skrifar
Rúmenskir stuðningsmenn ætla að láta vel í sér heyra á Laugardalsvelli 26. mars.
Rúmenskir stuðningsmenn ætla að láta vel í sér heyra á Laugardalsvelli 26. mars. vísir/getty

Þeir 500 miðar sem að rúmenska knattspyrnusambandið fékk til sölu á leik Íslands og Rúmeníu í EM-umspilinu á Laugardalsvelli seldust fljótt upp. Hins vegar má búast við talsvert fleiri en 500 Rúmenum á leiknum.

Laugardalsvöllur tekur um 9.800 manns í sæti og ljóst að íslenskir stuðningsmenn verða í miklum meirihluta. En líkt og á Íslandi er mikill áhugi á meðal Rúmena á að sjá nýjar vonarstjörnur þjóðarinnar berjast um sæti á Evrópumótinu sem fram fer í sumar.

Á rúmenska vefmiðlinum Gazeta Sporturilor er fjallað um áhuga Rúmena og þar segir að í Facebook-hópi Rúmena sem búsettir séu á Íslandi hafi skapast umræða um leikinn, og menn verið á tánum þegar KSÍ opnaði fyrir sölu miða á dögunum. Þeir sem náðu í miða á leikinn voru hvattir til að láta vita af sér og náðu ýmsir 4 eða 6 miðum og sumir jafnvel 8. Einn hafði tryggt sér miða án þess að komast á leikinn og kvaðst reiðubúinn að gefa þá til dyggra stuðningsmanna.

Samkvæmt frétt Gazeta Sporturilor vonast Rúmenar til að fylla í yfir 1.000 sæti á Laugardalsvelli, en ljóst er að 500 þeirra yrðu þá á víð og dreif, innan um íslenska stuðningsmenn. Þau 500 sæti sem rúmenska knattspyrnusambandið fékk eru væntanlega öll á sama stað, í nyrsta enda minni stúkunnar á Laugardalsvelli.

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×