Erlent

Kim laumar kolum til Kína

AP/KCNA

Yfirvöld Norður-Kóreu hafa haldið áfram þróun kjarnorkuvopna og eldflauga þrátt fyrir ályktanir og viðskiptaþvinganir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Farið hefur verið fram hjá þvingunum með því að smygla koli úr landi með aðstoð Kínverja og þaðan hefur einræðisríkið orðið sér út um verðmætan gjaldeyri sem notaður hefur verið til að kaupa eldsneyti, tæki og tól fyrir vopnaáætlanir ríkisins.

Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir öryggisráðið og verður opinberuð í næsta mánuði. Blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir skýrsluna.

Viðskiptaþvingunum var fyrst beitt gegn Norður-Kóreu árið 2006 og hafa þær verið hertar reglulega síðan þá. Markmiðið er að koma í veg fyrir að forsvarsmenn ríkisins geti komið höndum yfir búnað ­og kunnáttu til að byggja kjarnorkuvopn og eldflaugar til að bera þau. Norður-Kórea hefur þó sýnt mikla getu til að komast fram hjá þvingununum.

Norður-Kóreu var til að mynda meinað að selja kol árið 2017. Síðan þá áætla Sameinuðu þjóðirnar þó að frá janúar til ágúst í fyrra hafi 3,7 milljónir tonna af kolum verði smyglað frá Norður-Kóreu með notkun pramma.

Kolin voru flutt úr fraktskipum frá Norður-Kóreu yfir í pramma frá Kína. Þeir voru svo notaðir til að flytja kolin til Kína og selja þau þar. Yfirvöld Kína hafa þó lengi staðhæft að þeir fylgi viðskiptaþvingununum. Í yfirlýsingu til Reuters segja erindrekar Kína gagnvart Sameinuðu þjóðunum að ásakanirnar í skýrslunum séu innihaldslausar.

Yfirvöld Kína og Rússlands hafa haldið því fram að viðskiptaþvinganirnar komi niður á almennum borgurum í Norður-Kóreu og er það að vissu leyti stutt í skýrslunni. Þar segir að lítill vafi sé á því að þvinganirnar komi niður á borgurum, þó erfitt sé að staðhæfa það út frá þeim gögnum sem til eru.

Forsvarsmenn Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands segja þó alls ekki tímabært að aflétta þvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×