Erlent

Tyrkir áforma innrás í Sýrland

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan er forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan er forseti Tyrklands. vísir/getty
Tyrkir áforma nú innrás inn í norðausturhluta Sýrlands og Bandaríkjamenn virðast hafa gefið grænt ljós á aðgerðirnar.

Í yfirlýsingu frá Bandaríkjastjórn sem barst í gærkvöldi segir að Tyrkir ætli að láta til skarar skríða og er sérstaklega tekið fram að bandarískir hermenn verði ekki á svæðinu. Þó er sagt að Bandaríkjaher ætli ekki að styðja við árásina eða skipta sér af henni með nokkrum hætti.

Þarna er komið verulega annað hljóð í strokkinn hjá Bandaríkjamönnum, sem hingað til hafa haldið verndarhendi yfir kúrdískum skæruliðum sem ráðið hafa ríkjum í norðausturhluta Sýrlands og tóku virkan þátt í því að brjóta ISIS samtökin á bak aftur. Tyrkir líta hins vegar á Kúrda sem hryðjuverkamenn sem þeir vilja uppræta.

 

Donald Trump Bandaríkjaforseti varaði Erdogan kollega sinn alvarlega við í janúar á þessu ári og sagði að Bandaríkin myndu leggja efnahag Tyrklands í rúst ef þeir myndu ráðast á Kúrdana. En eftir símtal sem Erdogan forseti átti við Trump um helgina virðist sú afstaða hafa breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×