Erlent

Johnson vill ekki boða til kosninga

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Boris Johnson hélt ávarp eftir ríkisstjórnarfund.
Boris Johnson hélt ávarp eftir ríkisstjórnarfund. AP/Alberto Pezzali
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill að þingmenn felli frumvarp stjórnarandstæðinga um að banna samningslausa útgöngu úr Evrópusambandinu. Í ávarpi sínu eftir ríkisstjórnarfund sagði Johnson að slíkt bann myndi skaða samningsstöðu Breta.

Ólíklegt þykir að Bretum takist að ná nýju samkomulagi við Evrópusambandið fyrir settan útgöngudag, 31. október. Johnson hefur margoft lýst því yfir að útgöngu verði ekki frestað og er því samningslaus útganga líklegasta niðurstaðan. Það er að segja ef fyrrnefnd frumvarp kemst ekki í gegnum þingið.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að Johnson íhugaði að boða til kosninga ef frumvarpið verður samþykkt og tóku stjórnarandstöðuleiðtogar vel í þá hugmynd. Johnson lofaði þó engu slíku í ræðu sinni.

„Við skulum leyfa samninganefnd okkar að halda áfram sinni vinnu án þess að fallöxin vofi yfir þeim. Og það án kosninga, án kosninga. Ég vil ekki kosningar. Þið viljið ekki kosningar,“ sagði forsætisráðherrann.


Tengdar fréttir

Kosningar gætu blasað við á Bretlandi

Forsætisráðherrann er sagður ræða af alvöru um að boða til kosninga strax í haust verði ríkisstjórnin undir á þingi í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×