Innlent

Þorði ekki á veiðar vegna lífvarða Pence

Jakob Bjarnar skrifar
Sigtryggur Ari þorði ekki að fara með byssur sínar út í bíl vegna lífvarða Pence og þurfti því að fresta för sinni austur á land.
Sigtryggur Ari þorði ekki að fara með byssur sínar út í bíl vegna lífvarða Pence og þurfti því að fresta för sinni austur á land. fbl/Sigtryggur Ari
„Já, það er óþarfi að espa þessa kalla,“ segir Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari á Fréttablaðinu.

Allt þjóðfélagið er meira og minna í uppnámi nú þegar varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, er hér að hitta mann og annan. Mikill viðbúnaður er, þyrlur og leyniskyttur gráar fyrir járnum. Sem svo varð til þess að Sigtryggur Ari þurfti að fresta för sinni.

Hann er á leið austur á land, á hreindýraveiðar og þarf vitaskuld að fara með byssur sínar út í bíl.

„Ég bý í Laugarnesi. Pence er á fundi í næstu götu. Það hangir þyrla yfir húsinu mínu og ekki glæta að ég setji vopnin út í bíl fyrr en þetta er liðið hjá. Ekki séns,“ segir Sigtryggur Ari á Facebook og hefur þetta öðrum þræði í flimtingum.

„Mér var um og ó,“ segir Sigtryggur Ari í samtali við Vísi. Hann lét sig samt hafa það að beina myndavél sinni að þyrlunni.

„Ég veit alveg hvað til míns friðar heyrir. Ég er þaulreyndur í svona prjáli og hef starfað lengi á hliðarlínunni með myndavélina,“ segir ljósmyndarinn og telur ekki vert að storka lífvörðum Pence. En, þetta varð til að fresta för hans austur um klukkutíma. Þegar Vísir ræddi við Sigtrygg Ara var hann kominn út á hlað, búinn að koma búnaði sínum fyrir í farartækinu og þess albúinn að aka af stað austur á bóginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×