Enski boltinn

Neville: Tap í undanúrslitunum þýðir að við höfum ekki staðið okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Neville vill ekkert annað en sæti í úrslitaleiknum
Neville vill ekkert annað en sæti í úrslitaleiknum vísir/getty
Phil Neville vill koma upp sigurvegara hugarfari í enska kvennalandsliðið í fótbolta og segir að tap í undanúrslitum á HM þýði að liðið hafi ekki staðið sig.

Enska liðið sýndi sinn besta leik í 8-liða úrslitunum þegar þær unnu Noreg 3-0 og tryggðu sæti sitt í undanúrslitunum. Þetta er þriðja stórmótið í röð þar sem England fer í undanúrslit.

England á stórt verkefni fram undan í undanúrslitunum, ríkjandi heimsmeistara Bandaríkjanna.

Neville segir að hans stelpur verði að læra af hugarfari bandaríska liðsins sem er alltaf með einbeitinguna á að vera besta lið heims.

„Tap í undanúrslitunum þýðir að við höfum ekki staðið okkur. Þetta enska lið er tilbúið til þess að fara að vinna mót,“ sagði Neville.

„Ég sagði við stelpurnar í morgun að það væri auðvelt að fara að hugsa um að við værum komin í undanúrslit, hvað sem gerist í framhaldinu þá er orðspor okkar enn gott, okkur verður líklega boðið í heimsókn í Downing Street og það elska okkur allir heima. Ég vil það ekki.“

„Við verðum að þróa með okkur hugarfar sigurvegara. Við verðum að koma okkur upp þessu miskunnarleysi.“

„Ég vil ekki að við segjum að það sé ekki pressa á okkur. Það gefur öryggi. Við þurfum að vera hugrakkari.“

„Það er bara ásættanlegt fyrir okkur að snúa heim sem sigurvegarar. Við verðum að vinna að því að skilja að það er ekki í lagi að tapa undanúrslitaleikjum,“ sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×