Ensku ljónynjurnar fyrstar í undanúrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Englendingar fagna.
Englendingar fagna. vísir/getty
England varð í kvöld fyrsta liðið til að komast í undanúrslit á HM kvenna eftir öruggan 0-3 sigur á Noregi í Le Havre.

Þetta er annað heimsmeistaramótið í röð sem enska liðið kemst í undanúrslit. Á HM í Kanada fyrir fjórum endaði England í 3. sæti.

María Þórisdóttir lék allan tímann í vörn Noregs sem hefur ekki komist lengra en í 8-liða úrslit á HM síðan 2007.

Það tók Englendinga aðeins þrjár mínútur að ná forystunni. Jill Scott skoraði þá með skoti í stöng og inn eftir fyrirgjöf frá Lucy Bronze.

Fimm mínútum fyrir hálfleik tvöfaldaði Ellen White forskot Englands með skot af stuttu færi eftir sendingu frá Nikitu Parris. White er markahæsti leikmaður Englands á HM kvenna frá upphafi með sex mörk. Fimm markanna hafa komið í Frakklandi en hún er markahæst á HM 2019 ásamt Sam Kerr frá Ástralíu og Alex Morgan frá Bandaríkjunum.



Á 57. mínútu skoraði Bronze þriðja mark Englendinga með frábæru skoti eftir aukaspyrnu Bethany Mead.

Norðmenn fengu nokkur tækifæri eftir markið frá Bronze en tókst ekki að skora.

Parris fékk gullið tækifæri til að skora fjórða mark Englendinga á 82. mínútu en Ingrid Hjelmseth varði vítaspyrnu hennar. Vítið var dæmt á Maríu fyrir brot á Steph Houghton, fyrirliða Englands. Parris klúðraði einnig víti gegn Argentínu í riðlakeppninni.

England mætir annað hvort Frakklandi eða Bandaríkjunum í undanúrslitunum á þriðjudaginn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira