Lærisveinar Lars þurftu að sætta sig við jafntefli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/getty
Norðmenn eru enn án sigurs í F-riðli undankeppni EM 2020 í fótbolta eftir jafntefli við Rúmeníu á heimavelli.

Lærisveinar Lars Lagerbäck voru komnir í nokkuð vænlega stöðu þegar seint var liðið á leikinn, staðan var 2-0 þeim í vil eftir mörk frá Tarik Elyounousse og Martin Ödegaard.

Claudiu Keseru minnkaði muninn á 77. mínútu og skoraði svo jöfnunarmarkið í uppbótartíma leiksins, lokatölur 2-2.

Norðmenn eru því með tvö stig eftir tvær umferðir og vonir þeirra um að komast upp úr riðlinum því orðnar frekar litlar.

Spánverjar tróna á toppi riðilsins með fullt hús eftir öruggan sigur á Færeyjum 4-1. Sergio Ramos kom gestunum frá Spáni yfir á sjöttu mínútu og Jesus Navas bætti öðru marki við á þeirri nítjándu.

Klaemint Olsen náði að minnka muninn fyrir heimamenn á 30. mínútu en fjórum mínútum seinna skoraði Teitur Gestsson, markvörður Færeyinga, sjálfsmark. Staðan 3-1 fyrir Spán í hálfleik. Jose Gaya skoraði eina mark seinni hálfleiks og innsiglaði öruggan sigur Spánar.

Svíar unnu þægilegan sigur á Möltu 3-0 þar sem Robin Quaison, Viktor Claesson og Alexander Isak skoruðu mörk Svía.

Þegar öll lið hafa leikið þrjá leiki er staðan í riðlinum þannig að Spánn er á toppnum með níu stig, Svíar með sjö, Rúmenar fjögur, Malta 3, Noregur tvö og Færeyingar eru á botninum án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira