Erlent

Kim lætur reyna á þolinmæði Trumps

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kim virðist vera að missa þolinmæðina gagnvart Bandaríkjamönnum.
Kim virðist vera að missa þolinmæðina gagnvart Bandaríkjamönnum. Asahi Shimbun/Getty
Norðurkóreskir ríkisfjölmiðlar hafa staðfest að Kim Jong-un, einræðisherra landsins, hafi stjórnað æfingu þar sem ýmis flugskeyti voru prófuð.

Kim skipaði fyrir um að æfingin skyldi fara fram í því skyni að „bardagageta“ Norður-Kóreu yrði aukin, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi frá sér tíst í gær þar sem hann sagðist ekki halda að Kim myndi gera nokkuð sem gæti lagt möguleika á betra sambandi Bandaríkjanna og Norður-Kóreu í hættu.

„Hann veit að ég stend með honum og vill ekki svíkja loforðið sem hann gaf mér. Samningar munu nást!“





Í tilkynningunni þar sem fjallað er um hernaðaræfinguna, sem gefin var út af miðlægri fréttastofu [Norður-]Kóreu, segir að Kim hafi lagt áherslu á að verja „pólitísk fullveldi og efnahagslegt viðurværi“ landsins, í skugga ógnar um innrás.

Markmið æfingarinnar hafi verið að „rannsaka aðgerðarhæfni og nákvæmni“ flugskeytanna. Kim er þá sagður hafa minnt hermenn sína á „þann járnsannleik að fullkominn friður og öryggi verði aðeins tryggt með gríðarlegum styrk.“

Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu telja æfinguna bera þess merki að Kim sé farinn að missa þolinmæðina gagnvart Bandaríkjunum, en lítið hefur gengið í samningaviðræðum milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna. Það stafar af því að Bandaríkin eru ekki talin vilja aflétta viðskiptaþvingunum sínum á hendur Norður-Kóreu, nema ríkið hefjist handa við að losa sig við öll sín kjarnorkuvopn.

Æfingin brýtur þó ekki í bága við loforð leiðtogans um að gera ekki frekari prófanir með langdræg flugskeyti, en greinendur segja skeytin sem skotið var á loft hafa verið skammdræg.


Tengdar fréttir

Kim Jong-un íhugar að slíta viðræðum við Trump

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, mun brátt ákveða hvort hann ætli að slíta viðræðum við Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um kjarnorkuafvopnun eða halda þeim áfram.

Segir samband sitt við Kim vera ljómandi gott

Donald Trump Bandaríkjaforseti, tók í dag undir orð leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-Un og sagði samband þeirra vera ljómandi gott. Trump sagði að gott yrði að leiðtogarnir funduðu í þriðja sinn til þess að átta sig fyllilega á því hvar málin standa milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×