Tónlist

Hætt við að halda Sónar Reykjavík

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Til stóð að halda sjöundu Sónarhátíðina eftir um þrjár vikur.
Til stóð að halda sjöundu Sónarhátíðina eftir um þrjár vikur.
Hætt hefur verið við að halda tónlistarhátíðina Sónar Reykjavík, sem fram átti að fara dagana 25. til 27. apríl í Hörpu, vegna gjaldþrots WOW air. Öllum sem keyptu miða á hátíðina verður endurgreitt. Grapevine greindi fyrst frá ákvörðuninni, sem Vísir hefur sömuleiðis fengið staðfesta.

Starfsmenn í miðasölu Hörpu, sem Vísir ræddi við á fjórða tímanum, sögðust hins vegar ekkert hafa heyrt af þessum áformum í dag. Enn er hægt að kaupa miða á hátíðina, bæði í Hörpu á netinu.

Sem fyrr segir er hátíðin blásin af vegna falls WOW air í liðinni viku. Öllu flugi félagsins var aflýst við gjaldþrotið, sem setti ferðaáætlanir tónleikagesta og tónlistarmanna, sem stíga áttu á stokk á Sónar, úr skorðum. Því hafi verið ákveðið að taka þessa afdrifaríku ákvörðun til að varna því að tónlistarmennirnir fljúgi fýluferð hingað til lands.

Ljóst er að ákvörðun um að aflýsa hátíðinni var ekki í kortunum þann 28. mars síðastliðinn, daginn sem WOW air tilkynnti að flugfélagið hefði hætt starfsemi. 

Þá deildi Sónar Reykjavík færslu á Facebook-síðu sinni þar sem tónleikagestir voru hvattir til að leita réttar síns eftir fall WOW og lauk á orðunum: 

„Við þökkum fyrir skilninginn og vonumst til að sjá ykkur á Sónar Reykjavík 2019 í apríl.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×