Erlent

Kveikt í bíl norska dóms­mála­ráð­herrans

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og dómsmálaráðherrann Tor Mikkel Waras.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og dómsmálaráðherrann Tor Mikkel Waras. Mynd/FRP
Norska öryggislögreglan rannsakar nú eld sem kom upp í bíl dómsmálaráðherra landsins, Tor Mikkel Waras, í nótt.

Tilkynning um eldinn barst lögreglu og slökkviliði skömmu eftir klukkan hálf tvö að staðartíma í nótt, en bílnum hafði verið lagt fyrir utan hús ráðherrans í höfuðborginni Ósló. Verdens Gang segir að fljótlega hafi tekist að ráða niðurlögum eldsins.

Eftir að tæknideild Óslóarlögreglunnar hafði framkvæmt sína rannsókn var málinu komið í hendur öryggislögreglunnar PST.

Norskir fjölmiðar segja að ráðherrann, sem er í hópi fulltrúa Framfaraflokksins í ríkisstjórninni, hafi margoft þurft að sæta hótunum og skemmdarverkum að undanförnu.

Í byrjun desember síðastliðinn hafði einhver krotað hakakrossa og „rasisti“ á bíl hans og hús. Þá voru einnig merki um að einhver hafi reynt að kveikja í bílnum. Þá fannst kveikivökvi undir bíl ráðherrans í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×