Körfubolti

Sverrir Þór: Maður velur sér ekkert andstæðinga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sverrir Þór var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.
Sverrir Þór var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld. Vísir
„Við vorum með yfirhöndina nánast allan tímann og einhverjum fimmtán stigum yfir í hálfleik, en varnarlega ekki nógu góðir. Þriðji leikhluti var algjörlega frábær, vörnin frábær og við fengum mikið af auðveldum körfum og það var góð stemmning í liðinu,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn á Val í Dominos-deildinni í kvöld.

„Þeir voru held ég komnir með einhver 7 stig eftir níu mínútur í þriðja leikhluta. Ég get ekki verið annað en ánægður með það og við töluðum um í hálfleik að við þyrftum að leggja meira á okkur varnarlega. Við gerðum það og ég er kátur með það.“

Keflvíkingar fengu framlag frá mörgum í kvöld og sjö leikmenn sem skoruðu yfir 10 stig í leiknum.

„Það er gott að það séu að koma stig úti um allt. Við þurfum að fá stig frá okkar aðalmönnum og þeir sem eru að spila eitthvað minna þurfa að skila sínu líka.“

Með sigrinum í kvöld tryggðu Keflvíkingar sér heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og þeir eiga úrslitaleik við Tindastól á Króknum í næstu umferð um þriðja sæti deildarinnar.

„Við þurfum að vinna þar en það er ansi erfitt að vinna þarna fyrir norðan, þeir eru með hörkulið. Við förum þangað og gefum allt í þetta og ætlum þangað til að sækja sigur og reyna að komast í 3.sætið. Nú höfum við nokkra daga til að undirbúa það og við þurfum að spila hörkuvel. Við þurfum hörkuframlag frá öllum hópnum þar.“

Eins og staðan er núna munu þeir sem lenda í 3.sæti deildarinnar mæta Þór frá Þorlákshöfn í úrslitakeppninni en 4.sætið fær fimmfalda Íslandsmeistara KR. Sverrir sagði Keflvíkinga ekki hugsa stöðuna út frá því hverjum þeir munu hugsanlega mæta.

„Við viljum enda sem hæst og við eigum möguleika á 3.sætinu og eftir leikinn á Króknum þá sér maður hverjum maður mun mæta. Maður velur sér ekkert andstæðinga, þetta er allt erfitt. Við erum búnir að tryggja topp fjóra og það er einn leikur eftir sem við ætlum að vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×