Enski boltinn

Svona lítur bar­áttan um Meistara­deildar­sætin út fyrir enda­sprettinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Endaspretturinn verður erfiður fyrir Ole Gunnar.
Endaspretturinn verður erfiður fyrir Ole Gunnar. vísir/getty
Arsenal kom sér í bílstjórasætið í baráttunni um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær þegar að liðið varð fyrst til að vinna Manchester United undir stjórn Ole Gunnar Solskjær í deildinni.

Arsenal komst með sigrinum upp í fjórða sætið og hefur þar tveggja stiga forskot á United þegar að bæði lið eiga átta leiki eftir en Tottenham er einu stigi á undan Arsenal og Chelsea er í sjötta sætinu með 57 stig, þremur stigum á eftir Arsenal en á níu leiki eftir í deildinni.

Gary Neville, Jamie Carragher og Graeme Souness rýndu í baráttuna um síðustu Meistaradeildarsætin eftir sigur Arsenal í gær og fóru þar yfir leikina sem að liðin eiga eftir.

Leikirnir sem að liðin eiga eftir.mynd/sky Sports
Aðeins þrír af átta leikjum Tottenham, sem tapaði 2-1 fyrir Southampton um helgina, eru á móti liðum í efri helmingi deildarinnar en það á eftir að fara á útivöll gegn Liverpool og Manchester City.

Arsenal á mjög þægilega leiki eftir en United-leikurinn var sá síðasti á móti einu af sex efstu liðunum. Unai Emery og lærisveinar hans eiga aðeins eftir að mæra þremur liðum í efri helmingi deildarinnar.

Ole Gunnar Solskjær þarf heldur betur að halda áfram að sanna sig því United á eftir að mæta Manchester City og Chelsea, reyndar á heimavelli, en þá eru fimm leikir United af þeim átta sem eftir eru á móti liðum í efstu tíu sætum deildarinnar.

Chelsea á eftir níu leiki á móti átta leikjum hinna en Sarri og strákarnir hans eiga eftir að fara á Anfield og Old Trafford en þá eru fimm leikir Chelsea af níu á móti liðum í efri helmingi deildarinnar.


Tengdar fréttir

Fyrsta deildartap Solskjær kom gegn Arsenal

Ole Gunnar Solskjær tapaði í dag sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni er Manchester United tapaði 2-0 fyrir Arsenal á útivelli. Við það missti United fjórða sætið til Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×