Körfubolti

Finnur Freyr um Stólana: Hægir, þungir og fyrirsjáanlegir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson lagði hamarinn á Stólana.
Finnur Freyr Stefánsson lagði hamarinn á Stólana. mynd/stöð 2 sport
Tindastóll vann átta stiga sigur á föllnum Sköllum í 21. umferð Domino´s-deildar karla í körfubolta á sunnudaginn en Stólarnir hafa misst flugið eftir áramót og rúmlega það.

Þetta lið sem var á toppnum eftir fyrri umferðina getur endað í fimmta sæti eftir 22. umferðina á fimmtudaginn og misst heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni en liðið hefur verið ólíkt sjálfu sér á nýju ári.

„Þeir fá engin góð skot. Þessi sniðskot sem þeir fá eru allt skot yfir menn. Þeir ná ekki að brjóta neinar varnir og komast ekki framhjá einum né neinum. Þeir eru bara hægir og þungir og rosalega fyrirsjáanlegir,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, Íslandsmeistari síðustu fimm ára með KR, í Domino´s-Körfuboltakvöldi í gærkvöldi.

„Svo gerist það í þessum leik að vörnin er ekki að skapa neitt en Stólarnir hafa lifað mikið á varnarleiknum sínum og fengið mikið af auðveldum körfum. Vörnin var ekki til staðar í þessum leik nema í byrjun þriðja leikhluta þar sem að þeir ná 17-2 rispu,“ sagði Finnur Freyr.

Jón Halldór Eðvaldsson spáði því opinberlega í byrjun móts að allt myndi springa í loft upp í Skagafirðinum og að liðið myndi enda í fimmta eða sjötta sæti. Þá var hlegið en minna er hlegið að Jonna núna.

„Þeir lenda í „panikki“ í janúar og gjörsamlega fara á taugum. Nú eru þeir með lið sem er slakara en byrjaði. Af hverju í ósköpunum taka þeir til dæmis annan mann fyrir utan í staðinn fyrir stóran mann þegar að þeir eru með Pétur, Viðar, Brynjar og bosman? Með fullri virðingu fyrir Helga Rafni, Helga Frey og Axel vini mínum eru þeir ekki lengur gæjar sem geta verið í toppbaráttunni,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.

Alla umræðuna um Stólana má sjá hér að neðan.

Klippa: Dominos-Körfuboltakvöld - Stólarnir í basli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×