Enski boltinn

Salah tilbúinn að fórna draumum sínum til að vinna ensku deildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mohamed Salah vill vinna Meistaradeildina.
Mohamed Salah vill vinna Meistaradeildina. Getty/Simon Stacpoole
Mohamed Salah, framherji Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, segist vera tilbúinn að fórna eigin draumum um að vinna Meistaradeildina til að hjálpa Liverpool að vinna enska titilinn í fyrsta sinn í 29 ár.

Liverpool er í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni, stigi á eftir Manchester City, en það á fyrir höndum seinni leikinn í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á móti Bayern annað kvöld þar sem að staðan er markalaus.

Salah finnst ekkert stærra en Meistaradeildin en hann myndi gleðjast yfir því að vinna enska titilinn í staðinn fyrir Meistaradeildina á þessari leiktíð enda er biðin á Merseyside búin að vera löng.

„Ef ég á að vera heiðarlegur þá er Meistaradeildin stærsta og merkasta keppnin en draumur allrar borgarinnar og félagsins er að vinna deildina,“ segir Salah.

„Ég myndi því glaður fórna mínum draumum um að vinna Meistaradeildina fyrir liðið en ef við vinnum báðar keppnir væri það bara frábært. Það er það sem við erum að reyna að gera,“ segir Mo Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×