Enski boltinn

Miðvörður Liverpool klobbaður þrisvar í röð í upphitun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah með Dejan Lovren á æfingu hjá Liverpool.
Mohamed Salah með Dejan Lovren á æfingu hjá Liverpool. Getty/John Powell
Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni verða líka að halda einbeitingunni í upphitun því annars geta þeir endað í aðalhlutverki í sprelli myndbandi á samfélagsmiðlum.

Dejan Lovren átti nefnilega alltof fá svör í reit í upphitun fyrir síðasta leik Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Dejan Lovren er að koma til baka eftir meiðsli og hefur ekkert spilað með Liverpool liðinu síðan 3. janúar síðastliðinn.

Króatíski miðvörðurinn var á varamannabekknum á móti Burnley um síðustu helgi en kom þó ekkert við sögu í leiknum.

Dejan Lovren fór aftur á móti illa út úr upphituninni fyrir leikinn og það sem verra er að það náðist á myndband eins og sjá má hér fyrir neðan.





Þeir leikmenn sem náðu að klobba Dejan Lovren voru Jordan Henderson og Xherdan Shaqiri tvisvar sinnum. Það er ekki síst gaman að sjá viðbrögð Svisslendingsins eftir að hann nær þriðja klobbanum á stuttum tíma. Dejan Lovren getur ekki annað en hlegið skömmustulegur með liðsfélögum sínum.

Það má búast við að Dejan Lovren geti orðið Liverpool liðinu mikilvægur á næstunni þegar liðið spilar mikilvæga leiki í deildinni og Meistaradeildinni.

Dejan Lovren er einn af fáum sem spiluðu bæði úrslitaleik HM og úrslitaleik Meistaradeildarinnar á árinu 2018. Hann varð að sætta sig við silfur í báðum leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×