Enski boltinn

Vilja vinna fernuna fyrir City stuðningsmanninn sem varð fyrir fólskulegri árás

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Manchester City sem slasaðist var fjölskyldumaður eins og þessi.
Stuðningsmaður Manchester City sem slasaðist var fjölskyldumaður eins og þessi. Getty/Clive Mason
Stuðningsmenn Manchester City vilja að sínir leikmenn heiðri slasaðan stuðningsmann félagsins með því að vinna fernuna á þessu tímabili.

Umræddur stuðningsmaður Manchester City varð fyrir fólskulegri árás í Gelsenkirchen í Þýskalandi þegar hann var mættur til að fylgjast með fyrri leik Schalke og Manchester City í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Stuðningsmaður þessi var 32 ára gamall og hann varð fyrir miklum höfuðáverkum í árásinni. Hann lenti þarna í tveimur „ultra“ stuðningsmönnum Schalke liðsins.

Mark Rogers, einn af stuðningsmönnum Manchester City, hefur sett af stað söfnun fyrir fórnarlambið og fjölskyldu hans. Stuðningsfólk Schalke er meðal þeirra sem hafa gefið í þessa söfnun.





„Við fengum góð viðbrögð og nú skulum við vinna fernuna fyrir strákinn,“ sagði Mark Rogers í viðtali við BBC.

„City er fjölskylda. Þú býst við reiði en það var engin. Þetta snýst allt um að vona að hann nái sér að fullu og að allt verði í lagi,“ sagði Rogers.

„Þarna var fjölskylda á leiðinni á fótboltaleik, móðir, faðir og dóttir. Þau voru í fjölskylduferð og urðu fyrir áras. Þetta á ekki að gerast, ekki á neinum íþróttavelli,“ sagði Mark Rogers.

Hinn slasaði hefur ekki verið nefndur á nafn en hann var í dái eftir árásina. Hann hefur vaknað úr dáinu en getur ekki talað þar sem hann er í öndunarvél.

Manchester City vann fyrri leikinn 3-2 á útivelli og er því í fínum málum fyrir heimaleikinn í kvöld. City hefur þegar tryggt sér enska deildabikarinn en liðið er síðan í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar og komið alla leið í átta liða úrslit enska bikarsins.

Leikur Manchester City og Schalke hefst klukkan 20.00 í kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Meistaradeildarupphitunin hefst klukkan 19.30 og Meistaradeildarmörkin verða eftir báða leiki kvöldsins. Leikur Juventus og Atletico Madrid hefst líka klukkan 20.00 og er sýndur á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×