Erlent

„Aðþrengd eiginkona“ á meðal ákærðra í háskólasvikamyllu

Kjartan Kjartansson skrifar
Felicity Huffman (t.h.) og eiginmaður hennar William H. Macy (t.v.) mynda saman ofurparið sem hefur verið nefnt Filliam H. Muffman.
Felicity Huffman (t.h.) og eiginmaður hennar William H. Macy (t.v.) mynda saman ofurparið sem hefur verið nefnt Filliam H. Muffman. Vísir/EPA
Sjónvarpsleikkonur eins og Felicity Huffman og Lori Loughlin eru á meðal tuga manna sem hafa verið ákærðir fyrir að taka þátt í svikamyllu til að koma nemendum inn í nokkra virtustu háskóla Bandaríkjanna og svindla á inntökuprófum.

Alríkissaksóknarar í Boston hafa ákært að minnsta kosti fjörutíu manns í tengslum við sviksamlegar skráningar á nemendum í háskólum eins og Yale, Georgetown, Stanford og UCLA. Í ákærunum sem gerðar voru opinberar í dag er því haldið fram að svikamyllunni hafi verið ætlað að hjálpa auðugum Bandaríkjamönnum að greiða fyrir því að börnin þeirra kæmust inn í bestu skólana.

Fyrirtæki manns að nafni William Singer er sagt hafa selt þjónustu þar sem það útvegaði fólk til að taka inntökupróf í háskólana fyrir börn viðskiptavina þess. Í sumum tilfellum hafi það komið því þannig fyrir að börnin hafi verið skráð á íþróttastyrk jafnvel þó að þau væru ekki íþróttafólk, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Um 33 foreldri eru ákærð í málinu, þar á meðal Huffman og Loughlin. Huffman er þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum „Aðþrengdar eiginkonur“ en Loughlin hefur leikið í gamanþáttunum „Fullu húsi“. Auk þeirra hafa þrettán þjálfarar við háskóla og samstarfsmenn fyrirtækis Singer verið ákærðir.

Fréttastofa NBC-sjónvarpsstöðvarinnar segir að ekkert bendi til þess að háskólarnir hafi tekið þátt í svindlinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×