Enski boltinn

Klopp: Þurfum að sýna hugrekki og spila okkar besta fótbolta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp á blaðamannafundinum.
Klopp á blaðamannafundinum. vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að liðið þurfi að sýna hugrekki er liðið mætir Bayern Munchen í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Fyrri leikur liðanna var ekki fjörugur og endaði með markalausu jafntefli. Það er því ljóst að það verður háspenna lífshætta á Allianz-leikvanginum í kvöld en flautað verður til leiks klukkan 20.00.

„Þetta er áskorun. Við þurfum að vera í takt og þurfum að gera rétta hluti á ákveðnum augnablikum. Bayern er heimsklassalið og það vita allir. Þeir eru með frábæra leikmenn og við þurfum að verjast í hæsta klassa,“ sagði Klopp um leik kvöldsins.

„Þegar við erum með boltann verðum við að hafa sjálfstraust og það er erfitt gegn heimsklassaliði. Við verðum að vera hugaðir og spila okkar besta fótbolta. Við þurfum að sýna það í kvöld.“

„Það munu vera augnablik í leiknum þar sem við getum tekið yfir leikinn. Það koma augnablik þar sem Bayern mun stjórna leiknum. Í báðum augnablikum geturu nýtt aðstæðurnar en þetta snýst um jafnvægi.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvort að það sé gott fyrir Liverpool að fara áfram í Meistaradeildinni því liðið er að berjast á toppi úrvalsdeildarinnar. Klopp segir að leikur kvöldsins breyti engu hvað ensku deildina varðar.

„Þessi leikur hefur enga tengingu við neitt annað. Ef við förum áfram í keppninni, ef við vinnum í kvöld, ef við eigum skilið að fara áfram, ef við spilum góðan fótbolta, þá gæti það breytt heiminum fyrir okkur.“

„Ef ekki þá segjum við á fimmtudagsmorguninn: Þetta er búið og nú einbeitum við okkur að leiknum gegn Fulham. Þetta er einungis einn leikur. Mikilvægur leikur. Eins og leikurinn gegn Fulham á sunnudaginn og gegn Tottenham og sá næsti en í kvöld spilum við einn stóran leik og hann er gegn Bayern,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×