Enski boltinn

Hugrakkari en Liverpool, djarfari en City og meira spennandi en United-lið Ole Gunnars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Leeds United fagna hér einum af mörgum sigrum sínum á tímabilinu.
Leikmenn Leeds United fagna hér einum af mörgum sigrum sínum á tímabilinu. Getty/Alex Dodd
Leeds United hefur sjaldan verið í betri stöðu í baráttunni fyrir sæti í ensku úrvalsdeildinni en einmitt á þessu tímabili. Blaðamaður Telegraph er á því að enska úrvalsdeildinni þurfi að fá Leeds United aftur upp.

Leeds vann 3-0 sigur í vikunni og er í efsta sæti ensku b-deildarinnar, einu stigi á undan Norwich City sem á reyndar leik til góða í kvöld. Tvö efstu liðin fara beint upp en þriðja sætið fer til liðsins sem vinnur úrslitakeppnina milli liðanna sem enda í þriðja til sjötta sæti í deildinni.

Sheffield United í þriðja sætinu og aðeins tveimur stigum á eftir Leeds. Þetta lítur því vel út fyrir Leedsara en er hvergi nærri öruggt. Gott gengi í vetur hefur aftur á móti fengið knattspyrnusérfræðinga og knattspyrnuáhugafólk til að sjá fyrir sér bjartari framtíð fyrir hönd Leeds United.

Luke Edwards á Telegraph skrifaði pistil þar sem hann fer yfir því af hverju það væri best fyrir fótboltann og ensku úrvalsdeildina að endurheimta Leeds liðið. Leeds vann enska meistaratitilinn í þriðja sinn árið 1992 en hefur ekki verið í efstu deild síðan tímabilið 2003-04.





Leeds er að spila frábæran fótbolta undir stjórn Argentínumanns Marcelo Bielsa og hann er hefur gjörbreytt spilamennsku þess á sínu fyrsta tímabili.

Blaðamaður Telegraph er heldur ekkert að spara hrósið og telur að Leeds-liðið sé hugrakkara en lið Liverpool, djarfara en lið Manchester City og meira spennandi en Manchester United liðið eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við.

Leeds United hefur oft ekki verið vinsælasta félagið í Englandi og það hefur hlakkað í sumum yfir óförunum á undanförnum árum. Stuðningsmenn Leeds United hafa hins vegar ekki yfirgefið bátinn og hafa flestir staðið með sínu félagi í gegnum mjög súrt og lítið sætt.

Spilamennska félagsins er því vel á pari við liðin í ensku úrvalsdeildinni og stuðningsmennirnir hafa alltaf verið framarlega í flokki. Leeds er félag með mikla sögu, hefð og mjög stóran hóp af ástríðufullum stuðningsmönnum. Stuðningsmennirnir mæta á leiki liðsins í dag alveg eins og þeir gerði þegar liðið spilaði í C-deildinni í nokkur ár.





Nú er öldin önnur og sömu stuðningsmenn sjá nú ensku úrvalsdeildina í hillingum. Tímabilið 2019-20 er líklegt að þeir fái aftur lið eins og Liverpool, Manchester City, Manchester United, Chelsea, Arsenal og Tottenham í heimsókn.  

Leeds er stærsta borgin í Jórvíkurskíri og Luke Edwards bendir á það staðreyna að það sé nú talsvert meiri viðburður fyrir stóru klúbbana þegar þeir fara til Jórvíkurskíris að fara spila við Leeds United í stað þess að vera spila við nágrannafélög Leeds eins og Huddersfield Town eða Hull City.





Framundan er leikur við Sheffield United um næstu helgi og sigur þar væri risaskref í rétta átt að tryggja sér úrvalsdeildarfótbolta á Elland Road í fyrsta sinn í meira en fimmtán ár.

Það má sjá pistil Luke Edwards á Telegraph síðunni með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×