Körfubolti

Einar Árni: ÍR er með frábært lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Árni og félagar fá verðugt verkefni í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar.
Einar Árni og félagar fá verðugt verkefni í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar. vísir/bára
„Sóknin var flott og vörnin var betri í seinni hálfleik en þeim fyrri. Aðalatriðið var að enginn meiddist. Það var margt gott í þessu og margir lögðu í púkkið,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, í samtali við Vísi eftir sigurinn á Skallagrími í kvöld.

Í síðustu tveimur umferðunum Domino's deildar karla mætti Njarðvík liðunum sem féllu, Breiðabliki og Skallagrími. Einar segir að þetta hafi ekki verið óskastaða.

„Ég hefði ekki valið mér þetta. Síðustu 2-3 vikurnar hefur þetta verið hangandi yfir okkur; að þetta væri möguleiki. Við reyndum bara að horfa á sjálfa okkur,“ sagði Einar sem hrósaði Borgnesingum fyrir þeirra frammistöðu í kvöld

„Skallarnir voru áræðnir, létu vaða og hittu mjög vel. Við áttum í mesta basli með að stoppa þá og við getum ekki sagt að við höfum ekki fengið eitthvað út úr þessu.“

Njarðvíkingar áttu möguleika á deildarmeistaratitlinum en fengu ekki hjálp frá Haukum sem þeir þurftu á að halda. Þeir grænu enduðu í 2. sæti og þeirra bíður einvígi gegn ÍR í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar.

„Þetta er mjög spennandi verkefni. Þeir eru með frábært lið og unnu okkur í hörkuleik um daginn. Við höfum eitthvað að sanna í þeim leikjum því við vorum heldur ekki góðir í fyrri leiknum í Seljaskóla. Við þurfum að undirbúa okkur vel. Ég er fullur tilhlökkunar,“ sagði Einar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×