Enski boltinn

Tveir af þremur sérfræðingum Sky Sports spá City titlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Endaspretturinn verður erfiður fyrir Ole Gunnar.
Endaspretturinn verður erfiður fyrir Ole Gunnar. vísir/getty
Endaspretturinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta fer á fullt um helgina og svo almennilega eftir landsleikjafríið en spennan er mikil bæði um Englandsmeistaratitilinn og Meistaradeildarsætin.

Sky Sports fékk þrjá af sínum helstu sérfræðingum til að spá í spilin hjá efstu sex liðunum og raða þeim niður frá 1-6. Þar kom í ljós að tveir af þremur spá City Englandsmeistaratitlinum og allir eru sammála um að Manchester United nær Meistaradeildarsæti.

Sérfræðingarnir eru þeir Matt Le Tissier, Charlie Nicholas og Phil Thompson en allir eru fastagestir í hinum gríðarlega vinsæla þætti Soccer Saturday þar sem að þeir horfa á sjónvarpið og lýsa mörkunum í leikjunum klukkan 15.00 alla laugardaga.

Le Tissier er á því að City verði meistari og spáir Liverpool, Tottenham og Manchester United í efstu fjórum en að Arsenal og Chelsea missi af Meistaradeildarsæti.

Gleðin verður í Manchester í maí að mati sérfræðinganna.vísir/Getty
„Það er erfiðast að spá í fjórða sætið þessa stundina þar sem að Chelsea á leik til góða en ég verð að veðja á Manchester United,“ segir Southampton-goðsögnin.

Charlie Nicholas hefur bullandi trú á sínum gömlu félögum í Arsenal sem hann spáir þriðja sætinu en hann er á því að City verði Englandsmeistari og United haldi fjórða sætinu.

„Arsenal á léttustu dagskránna það sem eftir er þannig ég giska á að það endi í þriðja. Tottenham er í frjálsu fjalli þessa stundina en ég býst við að United komi sterkt til baka eftir tapið gegn Arsenal og klári fjórða sætið,“ segir Nicholas.

Liverpool-goðsögnin Phil Thompson spáir svo sínum mönnum Englandsmeistaratitlinum og City öðru sæti en hann hefur trú á því að Tottenham haldi þriðja sætinu og United endi í fjórða.

„Chelsea er brothætt þessa dagana. Það er eitthvað í ólagi þar. United nær fjórða sætin út af Solskjær. Hann mun gera nóg til að klára það,“ segir Phil Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×